Frumvarpið fallið á prófum um mannúð og skilvirkni

Samfylkingin sat hjá í atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.
Samfylkingin sat hjá í atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Samsett mynd/Kristinn/Eggert

Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra sem samþykkt var í dag, hafa fallið á prófum er varða skilvirkni og mannúð.

Þar af leiðandi hafi Samfylkingin ákveðið að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um frumvarpið.

Í samtali við mbl.is segir Logi að flokkurinn hafi tekið undir markmið er lutu að því að auka skilvirkni, mannúð og samræmingu við önnur nágrannalönd í verklagi.

„En við teljum að þó að sumt hafi miðað í þá átt þá hafi annað ekki gert það og fallið á þessu prófi varðandi það. Samfylkingin styður til dæmis ekki þessar takmarkanir á rétti til fjölskyldusameiningar flóttafólks sem eru lagðar til í frumvarpinu.

Það er okkar mat að sú breyting falli á öllum þessum prófum, bæði er varðar mannúð og skilvirkni.“ segir Logi. 

Skoða hvert mál fyrir sig

Guðrún Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra greindi frá því í samtali við mbl.is fyrr í dag að hún hygðist leggja fram annað útlendingafrumvarp í haust ásamt því að leggja mögulega fram frumvarp um búsetuúrræði með takmörkunum.

Eitt helsta áherslu­atriði útlendingafrum­varpsins sem hún boðar verði að svipta flóttamenn dval­ar­leyfi ger­ist þeir upp­vís­ir um al­var­leg­an glæp.

Logi segir ótímabært að segja til um það hvort að Samfylkingin muni styðja þessi mál.

„Við munum nálgast þau mál sem koma frá ríkisstjórninni – ef hún lifir það þó að leggja fram fleiri – af yfirvegun og skoða það í hverju tilfelli fyrir sig. Það er ómögulegt að svara eitthvað fyrir um frumvörp sem ekki eru komin fram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert