Hvergi nærri hætt – Boðar annað útlendingafrumvarp

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra boðar áframhaldandi breytingar á lögum um útlendinga.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra boðar áframhaldandi breytingar á lögum um útlendinga. mbl.is/Óttar

„Ég er afskaplega ánægð með að Alþingi Íslendinga hafi tekið á sig rögg og samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar til þess að ná utan um fordæmalaust ástand sem hefur verið hér í íslensku samfélagi síðustu tvö árin.“

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is í kjölfar samþykktar á útlendingafrumvarpi hennar fyrr í dag. 

Hún kveðst þó hvergi nærri vera hætt og boðar annað útlendingafrumvarp í haust. Eitt helsta áhersluatriði þess frumvarps verður að svipta flóttamönnum dvalarleyfi gerist þeir uppvísir um alvarlegan glæp.

Síkvikur málaflokkur

Hún segir að málefni útlendinga, hælisleitenda og flóttamanna sé síkvikur málaflokkur sem þurfi að fylgjast mjög grannt með. Margt geti gerst í öðrum löndum og fjarlægari heimshlutum sem geti haft áhrif hér á landi.

„Ég mun leggja fram áframhaldandi breytingar við útlendingalögin næsta haust. Þar á meðal er til dæmis það að þegar dvalarleyfishafi brýtur alvarlega af sér hér í íslensku samfélagi þá missir hann rétt til dvalar hér á landi,“ segir Guðrún og bætir því við að einnig verði kynntar frekari breytingar.

Búsetuúrræði og móttökumiðstöð í skoðun

Hún segir að ríkisstjórnin hafi ákveðið fyrir nokkrum vikum að setja á fót spretthóp um búsetuúrræði með takmörkunum fyrir hælisleitendur sem hafa fengið synjun um vernd og hlíta ekki íslenskum lögum.

Forsætisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa unnið að spretthópnum og væntir hún þess að fá tillögur frá honum innan skamms.

Í kjölfar þess gerir hún ráð fyrir því að leggja fram frumvarp um búsetuúrræði með takmörkunum í haust og jafnvel móttökumiðstöð.

„En spretthópurinn fékk líka það umboð að horfa á þetta verkefni frá upphafi til enda. Þannig við erum líka að horfa á móttökumiðstöð og svo þessi dvalarúrræði meðan það er að bíða eftir niðurstöðu,“ segir Guðrún.

Fingrafaragrunnur og styrking landamæra

Hún leggur áherslu á að Ísland þurfi að aðlaga útlendingalöggjöfina að því sem fyrirfinnist í nágrannalöndunum.

„Og við munum gera það. Öll nágrannalöndin eru að herða sína útlendingalöggjöf,“ segir Guðrún.

Þá er búið að samþykkja hælispakka Evrópusambandsins og segir hún Ísland bera skyldu til þess að innleiða fjórar reglugerðir á næstu tveimur árum.

„Það er til dæmis fingrafaragrunnur og lýtur að því að styrkja landamærin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert