Landsvirkjun hyggst selja fyrrum höfuðstöðvar sínar að Háaleitisbraut 68 í Reykjavík, að því er fram kemur í tilkynningu.
Félagið hefur verið þar til húsa í tæplega hálfa öld. Um helmingur byggingarinnar, alls 4.500 fermetrar, eru í eigu Landsvirkjunar.
Í tilkynningu segir að undanfarin ár hafi Landsvirkjun skoðað möguleika á nýju húsnæði. Húsnæðið við Háaleitisbraut hafi ekki lengur hentað starfseminni.
„Öllum slíkum vangaveltum var hins vegar hætt á meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. Að honum loknum greindist mygla í húsnæðinu og þá hófst aftur leit að nýju húsnæði, “ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að starfsfólk höfuðstöðvanna hafi verið á þremur stöðum í borginni um tíma, áður en starfsemin var sameinuð í Katrínartúni.
Síðar á árinu komi í ljós hvar nýjar höfuðstöðvar verði. Ekki hafi verið tekin ákvörðun hvort það húsnæði verði leigt, keypt eða byggt frá grunni.