Meta sakhæfi móðurinnar

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í næstu viku.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í næstu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómskvaddir matsmenn meta nú sakhæfi móðurinnar sem er sögð hafa játað að hafa ráðið syni sínum bana á heimili þeirra við Nýbýlaveg í Kópavogi í lok janúar. Líklega má vænta niðurstaðna á næstu dögum. 

Þetta kemur fram í samtali mbl.is við Karl Inga Vilbergsson, saksóknara hjá héraðssaksóknara. 

„Dómkvaddir matsmenn eru nú fengnir til að meta sakhæfi og sú vinna stendur enn yfir,“ segir Karl Ingi. Útskýrir hann að um svokallað yfirmat sé að ræða, að geðmat hafi verið framkvæmt á meðan málið var í rannsókn en matsmenn leggi nú mat að nýju. 

Fyrirtaka í næstu viku

Staðfestir Karl Ingi að málið verði tekið fyrir dóm í næstu viku og tekur fram að niðurstöður um sakhæfi konunnar skipti miklu fyrir framgang málsins. 

„Það er í sjálfu sér ekkert að fara að gerast þá af því að við erum enn þá að bíða eftir geðmatinu,“ segir hann og bætir við að ekki sé ljóst hvenær niðurstöðurnar liggi fyrir en telur líklegt að það verði einhvern tímann á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert