Ríkisendurskoðun sögð villa um fyrir Alþingi

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi efast ekki um hæfi sitt.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi efast ekki um hæfi sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félag atvinnurekenda (FA) sakar Ríkisendurskoðun um að villa um fyrir Alþingi í viðleitni þingsins til að hafa eftirlit með meðferð almannafjár. Þetta kemur fram í minnisblaði um niðurstöður frumathugunar Ríkisendurskoðunar á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu.

Minnisblaðið var til umfjöllunar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (SEN) í síðustu viku. FA telur Ríkisendurskoðun hafa verið vanhæfa til þess að vinna úttektina en ríkisendurskoðandi hefur áður hafnað því.

„Skýrslubeiðni Alþingis gekk út á það að kanna hvort Íslandspóstur hafi fengið greiðslur úr ríkissjóði sem ekki stóðust lög og sá sem var fenginn til að kanna það var ráðgjafi fyrirtækisins við það að stilla hlutunum upp þannig að Pósturinn fengi sem hæstar greiðslur. Þetta gengur engan veginn upp,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA í samtali við Morgunblaðið.

„Við vorum á sínum tíma mjög hissa á frumathugun Ríkisendurskoðunar enda kom stofnunin sér undan því sem Alþingi bað hana að gera, þ.e. að kanna hvernig Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), og síðar Byggðastofnun, hefði tekist til við eftirlit með því að Íslandspóstur færi að póstlögum. Það eru margvísleg rök og vísbendingar um að þar hafi stofnanirnar brugðist. Annars vegar er þar undir að ÍSP hafi fengið háar fjárhæðir úr sjóðum skattgreiðenda með ólögmætum hætti og hins vegar að þeir fjármunir hafi verið nýttir til undirverðlagningar sem sköðuðu keppinauta Póstsins í viðskiptum. Þetta eru alvarleg mál og skiljanlegt að Alþingi vilji fá svör við þessu,“ segir hann.

Skauti fram hjá spurningum

Ólafur segir Ríkisendurskoðun hafa skautað fram hjá spurningum sem að þessu lutu. „Ríkisendurskoðun segir í raun að önnur stjórnvöld séu komin að niðurstöðu um þessi mál og vísar til niðurstaðna PFS og Byggðastofnunar og snýr út úr spurningum þingsins, til dæmis varðandi lagaákvæðið um að gjaldskrá ÍSP eigi að taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði, sem liggur fyrir að hún hefur ekki gert. Niðurstaðan er sú að Ríkisendurskoðun virðist líta svo á að hún eigi ekki að hafa neitt eftirlit með eftirlitinu.“

Fyrri umfjöllun Morgunblaðsins, sem kom inn á minnisblað fyrrverandi forstjóra Íslandspósts, Birgis Jónssonar, setti athugun Ríkisendurskoðunar í samhengi í huga þeirra hjá FA. „Í minnisblaðinu kemur fram að Íslandspóstur hafi notið ráðgjafar Ríkisendurskoðunar við það að stilla upp tölum sem eru notaðar í reiknilíkani sem er í rauninni tæki ÍSP til að reyna að knýja fram fjárveitingar úr sjóðum skattgreiðenda,“ segir Ólafur.

Við þetta stöldruðu þeir í FA og sendu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd erindi í kjölfarið. „Í millitíðinni höfum við farið betur yfir þetta með lögfræðingum. Í lögum um ríkisendurskoðanda er tæmandi upptalning á starfssviði Ríkisendurskoðunar og þar er ekkert að finna um að stofnunin eigi að vera í ráðgjafarhlutverki fyrir ríkisaðila, stofnanir eða fyrirtæki, þar sem hún fer með endurskoðun á reikningum og hefur þannig eftirlit með þeim. Í sömu lögum er kveðið á um að ríkisendurskoðandi geti verið vanhæfur til að fjalla um og afgreiða tiltekin mál. Þá eigi hann að víkja sæti og forseti Alþingis skipar sérstakan ríkisendurskoðanda. Okkur finnst blasa við að það hafi verið um slíkt vanhæfi að ræða í þessu máli og að það sé skýringin á því hversu rýr frumathugunin er.“

Með erindinu vilji FA vekja athygli forseta þingsins á þessari stöðu og kalla eftir skýrara regluverki um hlutverk Ríkisendurskoðanda.

Veigamiklum spurningum ósvarað

Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður SEN. Spurð hvort hún telji einhverjum spurningum enn ósvarað útilokar hún það ekki, en leggur áherslu á að Ríkisendurskoðun sé sjálfstæð í sínum störfum og athugunin eins og henni var skilað standi. Hvað varðar möguleg viðbrögð við því að ekki sé farið eftir ákvæði laga um að gjaldskrá ÍSP endurspegli raunkostnað með tilheyrandi röskun á samkeppni og án athugasemda eftirlitsaðila segir Þórunn þingið vissulega geta brugðist við með sínum hætti.

„Það sem þú nefnir um samkeppnisstöðuna og lög um Íslandspóst, þá eru lögin skýr. Ef það er meirihluti fyrir því að breyta þeim með einhverjum hætti þá er hægt að gera það. Hvað varðar samkeppnismálin, þá myndi ég halda að það væri hlutverk þeirrar stofnunar sem hefur eftirlit með samkeppniseftirlitinu, sem hefur eftirlit með samkeppni á markaði, að tjá sig um það. En að því sögðu þá geta einstakir þingmenn og/eða nefndir, til dæmis fagnefndin um samkeppnismál, efnahags- og viðskiptanefnd, tekið þessi mál fyrir ef vilji er fyrir því.“

Spurð hvort hún efist um hæfi Ríkisendurskoðunar í málinu segir hún það ekki sitt að dæma um það. „Vanhæfisregla stjórnsýsluréttarins á Íslandi er þannig að það er hver og einn sem metur sitt hæfi.“

Hildur Sverrisdóttir situr einnig í SEN en hún telur mörgum spurningum enn ósvarað. „Það eru vonbrigði að eftir frumathugun hafi Ríkisendurskoðandi tekið ákvörðun um að fara ekki í heildstæða úttekt á grundvelli beiðnar Alþingis. Það þýðir að mörgum veigamiklum spurningum er enn ósvarað.“

Hún segir málið enn í vinnslu í nefndinni og útilokar ekki að það verði skoðað nánar. Hvað varðar hæfi Ríkisendurskoðunar tekur Hildur í sama streng og Þórunn. „Lögin eru skýr með að ríkisendurskoðandi metur hæfi sitt sjálfur og það er ekki á valdi nefndarinnar að hafa skoðun þar á.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert