Segja einn starfsmann hafa búið í kjallaranum

Gríska húsið við Laugaveg.
Gríska húsið við Laugaveg. mbl.is/Árni Sæberg

Þrír menn voru handteknir fyrr í dag í aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við Gríska húsið að Laugavegi 35.

Handtökurnar voru framkvæmdar í kjölfar skoðunar Skattsins og lögreglu á rekstrar- og starfsmannaleyfum en grunur leikur á um að starfsmenn staðarins séu þolendur mansals.

Í tilkynningu lögreglu vegna málsins kemur fram að leyfastaða fjölmargra staða hafi verið skoðuð í eftirliti með Skattinum.

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Skatturinn fóru nýverið í sameiginlegt eftirlit á rúmlega tuttugu matsölustaði í umdæminu til að kanna hvort öll tilskilin leyfi væru þar fyrir hendi, bæði er varðar reksturinn og starfsmenn. Svo reyndist vera i flestum tilvikum, en fjórir staðir voru þó án starfsleyfis og einn án smásöluleyfis. Tveir starfsmenn reyndust jafnframt ekki hafa réttindi til vinnu hérlendis. Við eftirlitið kom einnig í ljós að allmargir starfsmenn voru ekki á launaskrá.

Í morgun var enn fremur farið í eftirlit með Skattinum á veitingastað í miðborginni vegna gruns um að þar væru leyfamál ekki í lagi, auk þess sem grunur lék á þar væru starfsmenn sem kynnu að vera þolendur mansals. Þrír menn voru handteknir og lítur rannsókn lögreglu m.a. að því að kanna hlut hvers og eins í málinu,“ segir í tilkynningunni.

Starfsmaður hafi búið í kjallaranum

Rúv hefur greint frá því að samkvæmt heimildum þeirra hafi einn starfsmanna Gríska hússins búið í kjallara hússins í gluggalausu rými.

Þá hafi, auk Skattsins og lögreglunnar, fulltrúar frá heilbrigðiseftirlitinu og Bjarkarhlíð komið að aðgerðunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert