„Er til bóta en búið að þynna það allt of mikið“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég komst ekki í atkvæðagreiðsluna þar sem ég þurfti að skjótast til útlanda á fund en ég var búinn að lýsa yfir stuðningi við málið og gera grein fyrir afstöðu minni.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is en hann var fjarverandi þegar atkvæðagreiðsla fór fram um útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra á Alþingi í gær. 

Frumvarpið var samþykkt en alls greiddu 42 atkvæði með frumvarpinu. Þingmenn ríkistjórnarflokkanna greiddu atkvæði með því ásamt þingmönnum Flokks fólksins og Bergþóri Ólasyni úr Miðflokknum.

Lögunum er ætlað að samræma íslenska löggjöf um útlendinga að því sem fyrirfinnst á öðrum Norðurlöndum en þau setja meðal annars strangari skilyrði um dvalarleyfi og fjölskyldusameiningar.

„Þetta frumvarp er til bóta en það er búið að þynna það allt of mikið út frá því að fyrst var farið að reyna við þetta fyrir nokkrum árum. Við vorum hálf svekktir að þau skyldu í fyrri atkvæðagreiðslunni eftir aðra umræðu fella allar tillögurnar okkar og annarra sem gengu eiginlega bara út á að koma inn aftur því sem þau höfðu ætlað sér að gera,“ segir Sigmundur.

Það þarf ný útlendingalög

Dómsmálaráðherra hefur boðað annað útlendingafrumvarp í haust en í samtali við mbl.is í gær sagði Guðrún Hafsteinsdóttir að helsta áhersluatriði þess frumvarp verði að svipta flóttamenn dvalarleyfi gerist þeir uppvísir um alvarlegan glæp. Spurður hvernig honum lítist á þessi áform segir Sigmundur:

„Miðað við þær vangaveltur sem maður hefur heyrt um þetta mál þá líst mér ágætlega á það en þetta er samt áframhaldandi bútasaumur og dugar ekki. Það þarf ný útlendingalög og nema úr gildi þessi lög sem tóku gildi 1. janúar 2017 og settu þetta allt af stað.“

Sigmundur segir að það þurfi að semja ný lög sem séu í takti við raunveruleikann sem Íslendingar séu að fást við. Hann segir að nýtt frumvarp dómsmálaráðherra og boðun á öðru sé skref í rétta átt en það dugi engan veginn til.

Næsti þingfundur er á þriðjudaginn og reiknar Sigmundur með því að hægt verði að ljúka þingstörfum í næstu viku.

„Ég get ekki sé að þau í stjórnarmeirihlutanum hafi áhuga á því að þingið dragist mikið miðað við ástandið á stjórnarheimilinu,“ segir Sigmundur.

Þangað til Svandís tryggir sér formennsku

Sumir hafa spáð því að stjórnin nái ekki að klára kjörtímabilið og nefna þá helst ágreining Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna í hinum ýmsum málum. Spurður út í það segir Sigmundur:

„Kannski heldur stjórnin áfram eitthvað í viðbót eða þangað til Svandís tryggir sér formennsku hjá Vinstri grænum sem verður að teljast líklegt.“

Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær skoða þingmenn Miðflokksins að bera fram tillögu um vantraust á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra vegna framgöngu hennar í hvalveiðimálinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert