Segir nýja áætlun setja markið hátt

Bjarni segir efnahagslegan ávinning fylgja aðgerðum í loftslagsmálum á Íslandi.
Bjarni segir efnahagslegan ávinning fylgja aðgerðum í loftslagsmálum á Íslandi. mbl.is/Eyþór

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir nýja aðgerðaráætlun í loftslagsmálum setja markið hátt. Verið sé að vinna að áætluninni í samstarfi við ólíka geira, en ekki með boðum og bönnum. 

Blaðamaður mbl.is náði tali af Bjarna á kynn­ingu stjórn­valda á upp­færðri aðgerðaráætl­un í lofts­lags­mál­um í gær. 

Samstarf ekki boð og bönn

Bjarni segir að iðulega sé talað um umhverfis- og loftslagsmál út frá hlýnun jarðar, sem hann segir risastórt verkefni fyrir heiminn allan. Aftur á móti telur hann að áætlunin nái vel utan um tækifæri Íslands til að gera betur og leggur hann áherslu á samstarf á milli geira. 

„Þannig að við eigum samstarf og séum ekki að stjórna með boðum og bönnum þegar kemur að leiðum til þess að takmarka losun gróðurhúsloftegunda,“ segir Bjarni. 

Áætlunin var kynnt í gær.
Áætlunin var kynnt í gær. mbl.is/Eyþór

Efnahagslegur ávinningur sé fólginn í árangri Íslendinga á sviði loftslagsmála og að aðgerðir á því sviði séu ekki einungis ímynd landsins til góðs. 

„Í þessu eru ýmiss efnahagsleg tækifæri, að byggja framtíðina á eigin hreinum orkugjöfum og losa okkur smám saman við olíu sem við þurfum að flytja inn dýrum dómi.“

Markið viljandi sett hátt

Aðgerðaráætl­un­in fel­ur í sér safn 150 lofts­lagsaðgerða. Það eru 100 fleiri aðgerðir en fólust í aðgerðaráætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar árið 2018.

Bjarni segir stjórnvöld hafa sett markið hátt, það sé það sem stjórnvöld sækist eftir. 

„Við vorum meðvituð um það þegar við settum okkar eigin landsmarkmið, sem eru umfram alþjóðlegar skuldbindingar, að við værum að setja markið hátt. Það er það sem við viljum sækjast eftir, að setja markið hátt og framúrskarandi árangur.“

Í því samhengi nefnir Bjarni tækniframfarir eins og rafvæðingu bílaflota.

„Þegar við reiknum okkur svona langt inn í framtíðina, þá er er alveg ástæða til að setja markið hátt og ef við grípum öll tækifæri sem standa okkur til boða þá munum við ná lengra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert