Segir ráðherra fara með rangt mál

Finnur Ricart Andrason, formaður Ungra Umhverfissinna.
Finnur Ricart Andrason, formaður Ungra Umhverfissinna. Ljósmynd/Aðsend

Finnur Ricart Andrason, formaður Ungra umhverfissinna, segir Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-,orku- og loftslagsráðherra, hafa farið með rangt mál á blaðamannafundi í gær þar sem fjórir ráðherrar kynntu upp­færða aðgerðaáætl­un í lofts­lags­mál­um.

Hann gagnrýnir einnig áætlunina og segir hana sýna fram á metnaðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.

Leiðréttir ráðherra

Guðlaugur Þór sagði á blaðamannafundinum í gær að losun frá landnotkun væri náttúruleg losun og væri því frábrugðin annarri losun á Íslandi. Finnur segir það ekki rétt. 

„Losun frá landnotkun er einmitt af mannavöldum,“ segir Finnur og bætir við að losun frá landnotkun sé langstærsti hluti af losun Íslands og að því sé mjög alvarlegt að ráðherra málaflokksins fari með rangt mál.

Fannar gagnrýnir Guðlaug Þór.
Fannar gagnrýnir Guðlaug Þór. mbl.is/Eyþór

Guðlaugur sagði sömuleiðis að stærsta aðgerðin væri að koma jarðefnaeldsneyti út og grænni orku inn.

Finnur segir langstærsta hluta af losun gróðurhúslofttegunda á Íslandi vera vegna ósjálfbærar landnotkunar, sem hafi ekkert með jarðefnaeldsneyti að gera.

„Vissulega þurfum við að losa okkur við jarðefnaeldsneyti, en það er bara ekki rétt að það sé stærsti hluti af þeim aðgerðum sem þarf að grípa til, semsagt að draga úr losun,“ segir Finnur.

Helmingur aðgerða ófjármagnaður

Finnur segir Ungum umhverfissinnum einnig finnast nýja aðgerðaáætlunin sýna fram á metnaðarleysi.

„Heilt yfir myndi ég segja að við fögnum því að það sé loksins búið að uppfæra þessa aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Það er löngu kominn tími á það. Það eru fjögur ár síðan síðast. Þannig að það er svona allra síðasti séns þannig að ráðuneytið myndi standast lög,“ segir Finnur.

„Að því sögðu þá er þetta langt frá því að vera nóg, nær ekki okkar alþjóðlegu skuldbindingum og ekki innlendum markmiðum ríkisstjórnarinnar. Þannig að þetta eru í raun mikil vonbrigði,“ segir Finnur og bætir við að þau hjá Ungum umhverfissinnum hafi verið að bíða eftir áætluninni í marga mánuði.

Þá sé um helmingur aðgerðanna ófjármagnaður.

„Í fjárlögum fyrir þetta ár og í fjármálaáætlun sömuleiðis er gert ráð fyrir samdrætti í fjármagni til loftslagsaðgerða,“ segir Finnur og bætir við að Ungir umhverfissinnar setji stórt spurningamerki við trúverðugleika aðgerðaáætlunarinnar.

Áætlunin var kynnt í gær.
Áætlunin var kynnt í gær. mbl.is/Eyþór

„Okkur finnst þetta bara rosa alvarlegt“

Hann gagnrýnir einnig samráðsleysi. Finnur segir gott að haft hafi verið samráð við atvinnulífið, en hann hefði viljað sjá betra samráð við almenning og umhverfisverndarsamtök.

„Okkur finnst þetta bara rosa alvarlegt. Ekki bara af því okkur finnst gott þegar er leitað til okkar heldur af því að við búum yfir rosa mikilli þekkingu, sérfræðiþekkingu í þessum málaflokki,“ segir Finnur.

Hann bætir við að Ungir umhverfissinnar hefðu getað lagt fram tillögur að aðgerðum sem hefðu getað skilað meiri samdrætti og hærri prósentatölu.

„Það er ekki endilega verið að uppfæra aðgerðaráætlun á réttum forsendum og það er ekki talað við réttu aðilana á leiðinni,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert