Töluverður reykur og vatn inni í Kringlunni

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir slökkviliðið telja sig vera búið að ná tökum á eldinum í þaki Kringlunnar. Hann segir töluvert tjón fylgja eldinum. 

Blaðamaður mbl.is ræddi við Jón Viðar á vettvangi rétt fyrir klukkan 19 í kvöld, en tilkynning um eldinn í austanverðum hluta Kringlunnar barst rétt fyrir klukkan 16. Kringlan var rýmd í kjölfarið og verður lokuð það sem eftir lifir dags hið minnsta. 

„Vonandi erum við búin að ná utan um þetta,“ segir Jón Viðar og bætir við að töluverður reykur og vatn sé á gólfinu inni í verslunarmiðstöðinni. 

Hann segir því verðmætabjörgun vera mönnum ofarlega í huga núna.

Eldurinn kviknaði austanmegin í húsinu.
Eldurinn kviknaði austanmegin í húsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tildrög óljós 

Jón Viðar segir tildrög eldsins vera óljós en iðnaðarmenn voru að bræða tjörupappa á þakinu í dag. 

„Það er ekki hægt að útiloka að það tengist því.“

Hann segir engan hafa slasast svo vitað sé vegna eldsins. Enginn hafi verið fluttur af vettvangi á slysadeild.

Talsvert tjón

Jón Viðar segir að búast megi við töluverðu tjóni í Kringlunni. 

„Reykurinn fer náttúrulega út um allt og vatnstjónið er komið í ákveðnar búðir,“ segir hann og bætir við að starfsmenn tryggingafélaganna eru mættir á staðinn. 

„Við erum að vinna með þeim að taka upp það vatn sem hægt er að taka upp.“

Jón Viðar hafði ekki tölu yfir hversu margir slökkviliðsmenn væru á vettvangi, en allt tiltækt slökkvilið hefur sinnt útkallinu og þá var fólk kallað til vinnu af bakvakt. 

Hann segir að slökkviliðið verði að störfum fram eftir kvöldi.

mbl.is/Jón Pétur Jónsson
mbl.is/Jón Pétur Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert