Bæjarfulltrúi segir sig úr Samfylkingunni

Þorbjörg Þorvaldsdóttir er ósátt við þingflokk Samfylkingarinnar, sem sat hjá …
Þorbjörg Þorvaldsdóttir er ósátt við þingflokk Samfylkingarinnar, sem sat hjá í atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarpið sem var samþykkt 14. júní. Ljósmynd/Aðsend

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ, hefur tilkynnt að hún ætli sér að segja sig úr Samfylkingunni.

„Ég hef ekki lengur áhuga á því að hlusta á flokksfélaga mína réttlæta þessa stefnubreytingu og segja mér að hún hafi ekki orðið.

En staðan er greinilega sú að það virðist vera orðið of róttækt fyrir Samfylkinguna að tala skýrt fyrir mannréttindum,“ segir Þorbjörg meðal annars í tilkynningu á Facebook.

Hún kveðst ósátt við þingflokk Samfylkingarinnar, sem sat hjá í atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarpið sem var samþykkt 14. júní.

Ræðurnar minni á Miðflokkinn 

„Samfylkingin er í stjórnarandstöðu, segist draga línu í sandinn þegar kemur að fjölskyldusameiningum - en er samt ekki á rauðu við atkvæðagreiðsluna? Hver er tilgangurinn með því að standa ekki með jaðarsettasta fólkinu á Íslandi?“ spyr Þorbjörg.

Hún segir jafnframt afgreiðsluna koma ofan í „margra missera þögn um mannréttindamál, skrítin ummæli forystu flokksins um útlendingamál, veik viðbrögð við þjóðarmorði í Palestínu, ræður sem eru farnar að hljóma eins og Miðflokkurinn hafi skrifað þær og aukna þjóðernishyggju í framsetningu efnis og orðræðu.“

Er því orðið svo að Þorbjörg vill ekki láta bendla sig við flokkinn og segir hann finnast í lagi að gera aðstæður flóttafólks á Íslandi ennþá ömurlegri en þær séu þegar.

Áfram oddviti Garðabæjarlistans

„Ég treysti Samfylkingunni sem sagt ekki lengur fyrir mínum hjartans málum í pólitík. Ég ákvað þess vegna hér í blíðunni á Ítalíu að segja mig úr flokknum.

Ég mun halda áfram sem oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar, óháð, enda erum við þverpólitískt félagshyggjuframboð. Ég óska vinum mínum og samstarfsfélögum í Samfylkingunni alls hins besta,“ segir Þorbjörg að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka