Óþreyjufullir þátttakendur Reykjavíkurmaraþons

ÍBR segist ekki geta veitt hlaupurum Reykjavíkurmaraþonsins vottun eins og …
ÍBR segist ekki geta veitt hlaupurum Reykjavíkurmaraþonsins vottun eins og er vegna persónuverndarlaga. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Rúmlega 200 manns hafa nú sett nafn sitt á undirskriftalista þar sem Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), er hvatt til að ljúka sem fyrst ferli til að öðlast vottun Frjálsíþróttarsambands Íslands (FRÍ) á Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þann 24. ágúst. 

ÍBR hefur borið fyrir sig að lög um persónuvernd standi því í vegi að þátttakendur hlaupsins séu sjálfkrafa skráðir í afrekaskrá FRÍ. Hins vegar hafa stjórnarmenn FRÍ sagt gjald sem sambandið þurfi að greiða fyrir vottun hvers hlaupara, standa því mest í vegi. 

Óþreyja í hlaupara samfélaginu

Reykjavíkurmaraþonið fagnar 40 ára afmæli í ár.

Hilmar Örn Óskarsson, rithöfundur og hlaupari, sem bjó til undirskriftarlistann, segist í samtali við mbl.is hafa tekið eftir mikilli óþreyju hlaupara vegna seinagangs í ferlinu að fá hlaup sitt staðfest af FRÍ, og hafi þess vegna stofnað listann. 

Tæplega 200 manns hefur skrifað undir undirskriftarlistann.
Tæplega 200 manns hefur skrifað undir undirskriftarlistann. Ljósmynd/Aðsend

Vottunin getur skipt sköpum fyrir þá hlaupara sem stefna á að taka þátt í stærri hlaupum erlendis, þar sem þátttaka er oft takmörkuð við þá sem hafa slíka vottun úr fyrri hlaupum. 

Hilmar deildi í fyrradag undirskriftarlistanum í færslu í Facebook-hópnum „Hlauparar á Íslandi“, en viðbrögðin stóðu ekki á sér og enn bætist í undirskriftirnar. 

Engin lausn of stutt í hlaup

Hilmar segir kveikjuna að stofnun listans hafa fyrst og fremst verið pistill Rannveigar Oddsdóttur, hlaupara og dósent við HA, frá 16.maí, þar sem hún gagnrýndi ÍBR og FRÍ fyrir að hafa enn ekki komist að niðurstöðu í málinu um hvernig sé hægt að tryggja vottunina. 

Hilmar segist hafa sent ÍBR fyrirspurn fyrir um viku síðan, þar sem honum barst svar um að málið væri enn í vinnslu.

„Það er mjög stutt í hlaupið og ef menn eru að safna styrkjum vilja þeir helst byrja sem fyrst. Ég veit að þetta er að hindra marga frá því að skrá sig, til dæmis ætla ég ekki að skrá mig fyrr en ég veit að þessi vottun verður veitt,“ segir Hilmar.

Þá hvetur Rannveig í færslu sinni hlaupara til að bíða með skráningu þar til ÍBR hefur gefið út yfirlýsingu um að vottunin verði veitt. 

„Ætlum ekki að gera ólöglegar tilraunir“

Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri ÍBR, segir í samtali við mbl.is að sambandið  hafi leitað lögfræðiálits vegna fyrirkomulagsins, og það hafi leitt í ljós að sjálfkrafa skráning í afrekaskrá FRÍ bryti í bága við lög um persónuvernd. 

Frímann Ari Ferdinandsson.
Frímann Ari Ferdinandsson. Ljósmynd/ÍBR

Frímann segir bandalagið hafa ákveðið af eigin frumkvæði að leita lögfræðiálits um lögmæti þessa fyrirkomulags við vottun, og hlusti hann á þær ábendingar sem þeim var veitt. 

„Það er okkar sjónarmið að við getum ekki afhent þriðja aðila upplýsingar um aðila, án samþykki hans. Við ætlum ekki að gera ólöglegar tilraunir og síðan bara bíða eftir kæru á okkur.“

Þá hafa stjórnarmenn FRÍ tekið fram í tilkynningum sambandsins að helsta ástæða þess að dregist hefur að veita vottunina sé ekki vegna persónuverndarsjónarmiða, heldur vegna gjalds sem sambandið þarf að greiða fyrir hvern hlaupara. 

Spurður um deilurnar neitaði Frímann að tjá sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert