Stefnt að opnun Kringlunnar á þriðjudaginn

Mikið vatn flæddi um byggingu Kringlunnar.
Mikið vatn flæddi um byggingu Kringlunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kringlan er lokuð í dag og á morgun meðan unnið er að reykræstingu og þurrkun eftir eldsvoðann sem þar varð í gær.

„Mikilvægt er að þetta gangi hratt og vel fyrir sig og því miður er ekki unnt að halda Kringlunni eða hlutum hennar í fullum rekstri meðan sú vinna stendur yfir,“ segir í tilkynningu frá Reitum og Kringlunni.

Stefnt er að opnum Kringlunnar á þriðjudaginn en verulegt tjón varð af völdum vatns og reyks í byggingunni en slökkvistarfi lauk um klukkan 1 í nótt.

Rekstraraðilar samstíga

„Reitir og Kringlan vilja koma á framfæri innilegum þökkum til viðbragðsaðila, rekstraraðila, starfsfólks verslana og allra þeirra sem hafa unnið að því hörðum höndum að koma í veg fyrir frekara tjón og við hreinsunarstörf.

Hröð og fagmannleg viðbrögð urðu til þess að engin slys urðu á fólki og hægt var að draga úr tjóni,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Þá segir að verslunareigendur og aðrir rekstraraðilar séu virkilega samstíga í því að ætla ekki að láta þennan atburð hafa áhrif á upplifun viðskiptavina.

„Kringlan er skemmtilegt samfélag og innan örfárra daga verður hægt að koma aftur í Kringluna að versla, borða og njóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert