„Þetta er svakalegt tjón“

Svava Johansen, eigandi og forstjóri NTC.
Svava Johansen, eigandi og forstjóri NTC. mbl.isÁrni Sæberg

Svava Johansen, eigandi og forstjóri NTC, sem rekur sex verslanir í Kringlunni, segir tjón af völdum eldsvoðans í Kringlunni í gær vera gríðarlegt.

„Þetta kemur mjög illa út hjá okkur og mesta tjónið er í Galleri 17. Þar er loftið nánast farið niður. Það er allt fljótandi í vatni og við megum ekki vera þar inni. Það er verið að reykræsta og það eru vatnsuguvélar út um allt,“ segir Svava við mbl.is, en hún og eiginmaður hennar unnu hörðum höndum í alla nótt við hreinsunarstarf og verðmætabjörgun.

„Svaka högg fyrir okkur“

NTC rekur verslanirnar Galleri 17, Companys, GS skór, Smash, Kultur og Kultur menn.

Svava segir að skemmdirnar séu langmestar í Galleri 17 en einnig hafi orðið verulegar skemmdir í Kultur, Kultur menn og GS skór. Allar verslanir NTC í Kringlunni eru á annarri hæð, en engar skemmdir urðu þó í Smash og Companys. 

„Þetta tjón er svaka högg fyrir okkur. Við erum með fullt af starfsfólki í vinnu og mikið af nýjum sumarvörum og það mun taka viku eða mánuði að opna þessar búðir aftur sem urðu fyrir þessum gríðarlega miklum skemmdum. Það þarf til að mynda að rífa allt loftið niður í Galleri 17 og það var nýbúið að leggja 650 fermetra af parketi á gólf verslunarinnar. Þetta er svakalegt tjón,“ segir Svava.

Mynd tekin úr verslun Galleri 17 í morgun.
Mynd tekin úr verslun Galleri 17 í morgun. mbl.is/Drífa Lýðsdóttir

Með verslanir í Smáralind og miðbænum

Svava segir að í dag og á morgun, þjóðhátíðardaginn, verði hún ásamt fleirum við hreinsunarstörf í verslununum. Hún segir að það sé mikil reykjarlykt í byggingunni en lyktin hafi minnkað mikið frá því í nótt.

Þá býst Svava við því að verslunarmiðstöðin verði opnuð á nýjan leik á þriðjudaginn.

„Við finnum að það er mikill samhugur hjá öllum verslunareigendum en þeir eru flestir á staðnum. Fólk finnur til með hvort öðru og það sem er sorglegt er að sumar verslanir eru einungis starfræktar í Kringlunni. Eigendur þessara verslana eru að lenda í miklu tjóni sem ég finn til með en við erum til að mynda erum með aðrar verslanir í Smáralind og í miðbænum á meðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka