Nú er þjóðhátíðardagurinn 17. júní genginn að garði og er haldið upp á 80 ára afmæli lýðveldisins í ár.
Mikla dagskrá er að finna víðs vegar um landið þar sem haldið verður hátíðlega upp á daginn og eitthvað að finna fyrir alla fjölskylduna.
Í Reykjavík byrjar dagurinn líkt og að venju á hátíðarathöfn á Austurvelli klukkan 11:10, þar sem forseti Íslands leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar. Því næst flytur Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræðu.
Fjallkonan flytur ávarp og nýstúdentar leggja blómsveig við leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar konu hans, að athöfn lokinni.
Skrúðganga verður gengin frá Hallgrímskirkju klukkan 13 þar sem gengið verður að hátíðarsvæðinu í Hljómskálagarði.
Margt verður um að vera um alla borg og má finna matarvagna, danslistir, tónleika og götuleikhús svo eitthvað sé nefnt. Nánari dagskrá í Reykjavík er að finna hér.
Í Kópavogi verða hátíðarsvæði á Rútstúni og við Versali, þar sem má finna söngatriði, leikhópinn Lottu og skemmtikrafta. Víða um bæinn verður hægt að finna skemmtilega dagskrá á borð við skrúðgöngu, hoppukastala, andlitsmálningu og graffiti-djamm.
Dagskrá Kópavogsbæjar í heild sinni má nálgast hér.
Stíf dagskrá verður í dag í Hafnarfirði, en stemningin byrjaði klukkan átta í morgun og lýkur ekki fyrr en tíu í kvöld.
Dagskráin hófst með fánahyllingu á Hamrinum í morgun í boði Skátafélags Hraunbúa og mun henni ljúka með tónlistarveislu á Thorsplani.
Í Hafnarfirði má finna hringekju, matarvagna, hoppukastala, þjóðbúningasamkomu og margt fleira, en dagskrána má sjá í heild sinni hér.
Ekki vantar upp á dagskrá Garðabæjar en klukkan 13 leiða Skátafélagið Vífill og Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar, göngu sem fer frá Hofsstaðatúni á Garðatorg. Þar mun fjallkona Garðabæjar halda ávarp, Latibær kemur fram og skemmtir og ýmis fleiri skemmtiatriði verða á Torginu.
Dagskrá Garðabæjar í heild sinni má finna hér.
Dagskrá lýðveldisdagsins í Mosfellsbæ hefst með hátíðarguðþjónustu í Lágafellskirkju klukkan 11. Skátafélagið Mosverjar leiðir svo skrúðgöngu frá Miðbæjartorginu að Hlégarði klukkan 13:30 þar sem við tekur mikil fjölskyldudagskrá.
Hoppukastalar, andlitsmálun, ýmis leikatriði og kaffihlaðborð er brot af því sem má finna í Mosfellsbæ í dag, en nánari dagskrá má finna hér.
Á Seltjarnarnesi verður hátíðardagskrá frá klukkan 10 til 15. Hún hófst á bátasiglingu frá smábátahöfninni í boði Siglingafélagsins Sigurfara og Björgunarsveitarinnar Ársæls.
Klukkan 12:45 verður gengin skrúðganga frá Leikskóla Seltjarnarness yfir í Bakkagarð og leiða lúðrasveit tónlistarskólans, trúðar, stultufólk og fánaberar gönguna.
Í Bakkagarði tekur svo við mikil dagskrá klukkan 13 með ýmsum skemmtiatriðum. Dagskrá Seltjarnarness má finna í heild sinni hér.
Á Akureyri verður haldið upp á þjóðhátíðardaginn í Lystigarðinum. Skrúðganga verður gengin frá Gamla húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti og þaðan í Lystigarðinn þar sem við taka hátíðarhöldin. Þar má finna alls kyns skemmtanir á borð við dansatriði, skátatívolí, andlitsmálningu og fleira.
Hátíðarhöldin á Akureyri verða frá 14 til 17 og má finna nánari dagskrá hér.
Þjóðhátíðardegi Íslendinga er fagnað í Reykjanesbæ ár hvert þegar stærsti fáni landsins er dreginn að húni á fánastönginni í skrúðgarðinum í Keflavík.
Dagskráin hefst klukkan 12 með hátíðarguðsþjónustu í Keflavíkurkirkju. Skrúðganga verður gengin frá Keflavíkurkirkju í skrúðgarðinn klukkan 13, með sérstökum gestum úr U.S. Naval Forces Europe og Africa Band.
Við komuna í skrúðgarðinn byrjar skemmtidagsrá. Karlakór Keflavíkur syngur þjóðsönginn, fjallkona bæjarins flytur ávarp og ýmsa söng- og danslist má þar sjá, ásamt fleiru.
Dagskrá Reykjanesbæjar í heild sinni má finna hér.
Á Selfossi verður fjölbreytt hátíðardagskrá fyrir alla aldurshópa. Fánar voru dregnir að húni klukkan 10 og þá verður gengin skrúðganga frá Selfosskirkju inn í Sigtúnsgarð þar sem mikil hátíðardagskrá hefst.
Fyrir hádegi verður þó einnig nóg um að vera, þar sem til dæmis verður hægt að fara á hestbak og viðbragðsaðilar við Björgunarmiðstöðina verða með tækjasýningu.
Nánari dagskrá á Selfossi er að finna hér.
Hátíðarhöld á Ísafirði hefjast klukkan 12 með barnaskemmtun Kómedíuleikhússins. Klukkan 13:15 verður gengin skrúðganga frá Silfurtorgi upp á Eyrartún þar sem hátíðardagskrá tekur við, ýmist með hoppuköstulum, andlitsmálningu og fleiru tilheyrandi.
Einnig verður mikil dagskrá á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mun flytja ræðu klukkan 14:15 og allan daginn verður opin smiðja fyrir börn þar sem þau geta velt fyrir sé hvernig þau myndu nýta sína hæfileika ef þau væru forseti Íslands.
Dagskrá Ísafjarðar og Hrafnseyri má finna hér.
Hátíðarhöld verða í öllum kjörnum sveitarfélagsins í tilefni dagsins, en á Egilstöðum verður fjölskyldustund í Egilsstaðakirkju, skrúðganga frá kirkju í Tjarnargarð klukkan 11 þar sem skemmtidagskrá verður fram eftir degi.
Á Seyðisfirði hefst dagskráin klukkan 11 þegar blómsveigur er lagður á leiði Björns í Firði. Klukkan 12:30 verður 17. júní hlaup fyrir krakka 12 og yngri við Seyðisfjarðarkirkju, en hátíðardagskrá í garðinum við Seyðisfjarðarkirkju hefst klukkan 13.
Nánari upplýsingar um dagskrána og dagskrá í öðrum kjörnum má finna hér.
Í Borgarbyggð voru fánar dregnir að húni klukkan 8 og eru allir íbúar hvattir til að gera slíkt hið sama í tilefni dagsins. Klukkan 10 hófst íþróttahátíð á Skallagrímsvelli þar sem 17. júní hlaup verður fyrir fólk á öllum aldri.
Klukkan 13:30 hefst skrúðgangan þar sem gengið verður frá Borganeskirkju í Skallagrímsgarð. Þar verður hátíðardagskrá frá klukkan 14, en klukkan 16:30 býður hestamannafélagið Borgfirðingur börnum á hestbak í Vindási.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna hér.
Fjarðabyggð heldur 17. júní hátíðlegan í samstarfi við íþróttahreyfinguna í Fjarðabyggð og fer hátíðardagskrá sveitarfélagsins fram til skiptis í hverjum bæjarkjarna. Hátíðardagskráin í ár fer fram við Salthúsmarkaðinn á Stöðvarfirði.
Hátíðardagskráin hefst klukkan 12:20 með afhjúpun og vígslu upplýsingaskilta við Stöðvarkirkjugarð og um fornleifauppgröftinn við Stöð. Við tekur forseti bæjarstjórnar sem heldur ávarp klukkan 13 og mun fjallkona bæjarins halda ávarp í kjölfarið.
Götulist, andlitsmálning, pylsur, kaka og sápukúlufjör er brot af því sem finna má við Salthúsmarkaðinn á Stöðvarfirði í dag.
Dagskrá Fjarðabyggðar í heild sinni má finna hér.
Í Hveragerði hófst dagskrá klukkan 9 með Wibit þrautabraut í sundlauginni Laugaskarði sem stendur yfir allan daginn til klukkan 19. Frá klukkan 10 mun Hestamannafélagið Ljúfur teyma undir börnum við félagsheimili Ljúfs.
Skrúðgangan hefst svo klukkan 13:30 og gengið verður frá horninu á Heiðmörk. Í Lystigarðinum verður svo hátíðardagskrá frá klukkan 14 til 16, en þá hefjast leikir og fjör fyrir alla fjölskylduna.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna hér.
Dagskrá Hvolsvallar hófst árla morguns með morgunmat í Hvolnum. Skrúðganga verður gengin frá Kirkjuhvol klukkan 12:30 og í kjölfar hennar verður mikil hátíðardagskrá á miðbæjartúninu.
Þar má finna hoppukastala, söng- og skemmtiatriði ásamt hátíðarræðu og ávarpi fjallkonu.
Fleira er um að vera á Hvolsvelli en dagskránna í heild sinni má nálgast hér.