Jafnaldri lýðveldisins ræktar garðinn sinn

Anna María Ámundadóttir.
Anna María Ámundadóttir. Ljósmynd/Vera Roth

„Mér var sagt að þegar ég fæddist hafi allir verið á Þingvöllum í leiðindaveðri í mikilli rigningu. Mamma var stödd á Hvanneyri hjá systur sinni og pabbi var fyrir norðan að vinna í síld á Siglufirði,“ segir Anna María Ámundadóttir sjúkraliði sem er jafnaldri lýðveldisins og fagnar því 80 ára afmælisdeginum í dag.

Langafi Önnu Maríu var Eggert Jochumsson, bróðir séra Matthíasar sem samdi ljóðið við þjóðsönginn sem var örugglega sunginn á Þingvöllum þennan dag.

„Þegar mamma sagði við systur sína að hún héldi að hún væri að fá einhverja kveisu á þjóðhátíðardaginn 1944 sagði systirin: „Þú ætlar þó ekki að eignast krakka á þessum degi!“ Henni leist ekkert á blikuna enda áttu þær systur ekki heimangengt með fullt af börnum,“ segir Anna María. „En sveitirnar voru víst bara tómar, það var svo mikið fjölmenni á Þingvöllum og allir að fagna sjálfstæði Íslendinga.“

Það endaði með því að samband náðist við nokkuð fullorðna ljósmóður í sveitinni sem af einhverjum ástæðum hafði ekki farið á Þingvöll. Hún kom og aðstoðaði við að koma Önnu Maríu í heiminn.

Fyrsta gjöfin fimm krónur

Anna María segir að í æsku hafi farið frekar lítið fyrir afmælinu hennar því þjóðhátíðin átti hug allra, sem hún segir vera skiljanlegt. „Ég var alltaf í sveitinni hjá föðurömmu minni á Iðu í Biskupstungum á þessum árstíma. Mér fannst eiginlega ekkert gaman að eiga afmæli þennan dag. Það þótti meira spennandi að fara í miðbæinn og halda upp á þjóðhátíðardaginn þar, sem er ósköp eðlilegt. Amma hafði samt alltaf svona smá kaffihlaðborð til að halda upp á daginn og ég fékk yfirleitt pening í afmælisgjöf og ég man að fyrst þegar ég man eftir mér fékk ég fimm krónur,“ segir hún og hlær.

Anna María er mikið náttúrubarn og afmælisdeginum ver hún í bústað í landi ömmu sinnar á Iðu í Biskupstungum með fjölskyldunni. „Ég hef alla tíð haft áhuga á garðrækt og uni mér hvergi betur en hér í moldinni að rækta garðinn minn.“ Hún segir að hún hafi alltaf verið mikið fyrir útiveru og hún hefur verið hestakona alla tíð.

„Ég á margar mjög góðar vinkonur í hestamennskunni og við höfum farið í fjölmargar ferðir um hálendið. Ég fer ennþá á hestbak og er enn með tvo hesta. Það er mjög dýrmætt að eiga svona góð áhugamál sem veita manni útiveru og félagsskap. Svo er stússið í kringum hestana góð hreyfing. Þegar maður eldist þá togar þetta í mann því maður þarf að huga að velferð dýranna.“

Fleiri afmælisbörn fæddust á lýðveldisdaginn 17. júní 1944. Þau eru Hjördís Smith, tannsmiður í Kópavogi, Sigurður Hjaltason, viðskiptafræðingur á Selfossi, og Ásta Sigurðardóttir, hundaræktandi í Dalsmynni á Kjalarnesi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert