Upptaktur þjóðhátíðar og 80 ára afmælis íslenska lýðveldisins var á Þingvöllum í gær þar sem var fjölbreytt dagskrá. Sú hófst nokkru fyrir hádegi með sögugöngu frá Hakinu og niður Almannagjá, þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sagði frá, vísaði til þjóðarsögu og þeirra tenginga sem þar eru við Þingvelli, oft og víða. Þetta mæltist vel fyrir, ekki síst meðal barnanna en frásögnin var á þá lund að athygli þeirra var vakin.
„Þingvellir eru helgur staður,“ sagði forseti í leiðsögn sinni um svæðið. „Hér mótaðist menningararfur og Þingvellir eru staður sagna sem lifað hafa í minni okkar Íslendinga. Hingað getum við líka sótt visku, vísdóm og skynsemi frekar en hindurvitni, hræðslu og fordóma.“
Eftir sögugöngu komu kórar saman á Lögbergi, þar sem ættjarðarlög gömul og ný voru í aðalhlutverki. Góður rómur var gerður að söng flokksins Skundum á Þingvöll, en þar fóru saman Ekkó sem er kór eldri kennara, Kór eldri borgara í Reykjavík, Gaflarakórinn úr Hafnarfirði og sönghópurinn Kátir karlar. Ýmsir fleiri kórar komu fram, þar sem fólk söng frá hjartanu svo gleðin skein á vonarhýrri brá.
Síðdegis og fram á kvöld var svo söngdagskrá, þar sem fram komu meðal annars Söngsveitin Góss með þeim Sigríði Thorlacius og Sigurði Guðmundssyni, Bubbi Morthens, Raddbandafélag Reykjavíkur, Valdimar, Reiðmenn vindanna, Helgi Björnsson og GDRN. Sú dagskrá var á Valhallarreit, þar sem útbúin hefur verið aðstaða þannig að fólk gat látið fara vel um sig og notið fjölbreyttrar dagskrár þar sem þjóðleg menning var inntakið.