Skora á SÍ að semja við heimilislæknana

Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke.
Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke. Samsett mynd/Heilsugæslan Urðarhvarfi

Stofnaður hefur verið undirskriftarlisti á Ísland.is þar sem skorað er á Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) að semja um læknisþjónustu á Akureyri við heimilislæknana Guðrúnu Dóru Clarke og Val Helga Kristinsson, þannig að þau geti aftur tekið á móti sjúklingum á Akureyri, sínum gömlu og nýjum.

Þetta kem­ur fram á Face­book-síðu Heilsu­vernd­ar, en Ak­ur­eyri.net greindi fyrst frá. 

Valur Helgi og Guðrún Dóra störfuðu lengi á heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Akureyri en réðu sig fyrir nokkrum mánuðum til starfa hjá heilsugæslunni í Urðarhvarfi í Kópavogi en höfðu aðstöðu á Læknastofum Akureyrar.

Aðstaða þeirra á Lækna­stof­un­um á Ak­ur­eyri var ætluð til að koma til móts við þarf­ir skráðra skjól­stæðinga heilsu­gæsl­unn­ar, sem búa á Ak­ur­eyri og vilja hitta heim­il­is­lækni sinn.  

SÍ kröfðust þess í febrúar að læknarnir tveir hefðu eingöngu aðsetur á Urðarhvarfi. Starfsemin á Akureyri var því stöðvuð tímabundið.

Í byrjun júní felldi Embætti landlæknis niður eftirlitsmál varðandi notkun Vals Helga á skilaboðakerfi Heilsuveru. 

„Líklega ekki gerst gerst áður“

Er þetta er ritað hafa um 440 einstaklingar skrifað undir undirskriftarlistann. Gildistími hans er til 31. júlí. 

„Afar áhugavert að sjá þetta, skjólstæðingar þessara frábæru lækna á Akureyri skora á Sjúkratryggingar sjálfar. Þetta hefur líklega ekki gerst gerst áður með þessum hætti hérlendis,“ segir í færslu Heilsuverndar. 

Þar segir að forsvarsmenn heilsugæslunnar í Urðarhvarfi hafi átt fund með heilbrigðisráðherra vegna málsins 20. mars og sendu í kjölfarið SÍ bréf með ósk um formlegar viðræður.

„Það bréf hefur verið ítrekað í nokkur skipti, en án þess að svar hafi borist um fund eða viðræður. Við gerum athugasemd við það að erindi okkar sé ekki svarað.“

Óskað eftir efnislegri meðferð

Þá hefur heilsugæslan í Urðarhvarfi óskað formlega eftir því við SÍ að taka til efnislegrar meðferðar heimild stöðvarinnar til þess að hafna skráningu utan þjónustusvæðis hennar sem og að stöðinni sé heimilt að afskrá skjólstæðinga að sama skapi.

„Hér er um að ræða grundvallar mál um þjónustu og möguleika heilsugæslustöðva til að sinna skráðum skjólstæðingum sínum, eða eftir atvikum hafa áhrif á það hvernig hægt er að sinna þeim. Ljóst er að réttur sjúklinga er mikill að fá að velja sér sinn þjónustuaðila,“ segir í færslunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert