„Það er svo gaman að geta nýtt þessa fallegu búninga“

17. júní þjóðhátíðardagur Íslendinga.
17. júní þjóðhátíðardagur Íslendinga. Morgunblaðið/Eyþór

Margt var um manninn í miðbæ Reykjavíkur í hádeginu í dag. Að venju voru margir túristar en í tilefni dagsins voru Íslendingarnir jafnvel fleiri. 

Blaðamaður náði tali á nokkrum sem ákváðu að halda niður í bæ í tilefni dagsins.

Mæðgurnar Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir og Íris María Leifsdóttir hafa ekki klætt sig upp í þjóðbúninginn á þessum merka degi í 12 ár. Þær ákváðu að slá til í ár og klæða sig upp í tilefni dagsins.

„Alveg dásamlegt, það er svo gaman að geta nýtt þessa fallegu búninga,“ svarar Steinunn, spurð hvort þeim finnist gaman að geta klætt sig svona upp.

Íris María Leifsdóttir og Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir.
Íris María Leifsdóttir og Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Drífa Lýðsdóttir

Báðar voru þær í búning sem ömmur þeirra áttu. Steinunn eyddi gærdeginum í að fínpússa búningana og strauja þá. „Ég er stolt af því að vera í búningnum,“ bætir hún við.

„Fyrir mér er þetta dagur ástarinnar, af því mamma og pabbi kynntust 17. júní og giftu sig 17. júní,“ segir Íris og segir Steinunn að þau hjón séu að halda upp á 36 ára brúðkaupsafmæli. „Þetta er stór dagur í lífi okkar,“ bætir hún við.

Fjölskylduhefð frænknanna

Fleiri mæðgur voru prýddar þjóðbúningnum en þær Hafdís Bridde og Anna Bridde voru staddar í miðbænum ásamt fjöldanum öllum af frænkum sínum, allar í þjóðbúningnum.

Anna Bridde og Hafdís Bridde.
Anna Bridde og Hafdís Bridde. mbl.is/Drífa Lýðsdóttir

„Erum að endurvekja þetta, höfum ekki gert þetta í einhver 15, 18 ár,“ segir Hafdís og bætir við að það hafi verið mikil fjölskylduhefð þeirra frænka að klæða sig upp í þjóðbúninginn á 17. júní.

Vongóður að blöðrurnar seljist

Blöðrukallinn, sem kýs að kalla sig Mr. Kaboom, heldur að dagurinn verði frábær og segir að þrátt fyrir að veðrið sé ekki það fallegasta sem sést hefur muni fólk eflaust fara út í tilefni dagsins. „Það rignir ekki, það er enginn vindur og það er gott,“ bætir Mr. Kaboom við.

Blöðrumeistarinn Mr. Kaboom frá Kanada.
Blöðrumeistarinn Mr. Kaboom frá Kanada. mbl.is/Drífa Lýðsdóttir

Mr. Kaboom segir alltaf vera áhuga fyrir því að kaupa blöðrur af honum.

Hann er Kanadískur en kemur til Íslands hvert sumar þar sem hann sýnir listir sínar í blöðrukúnstum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert