Það er útlit fyrir hægan vind á landinu í dag en heilt yfir verður nokkuð þungbúið á Suður- og Vesturlandi og dálítil væta gæti látið á sér kræla öðru hvoru.
Svo segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands um veðrið á þjóðhátíðardaginn.
Á Norður- og Austurlandi ætti að verða þurrt með einhverjum sólarköflum.
Hiti verður á bilinu 7 til 16 stig, hlýjast á Norðvesturlandi.
Á morgun nálgast lægð úr vestri og sendir hún úrkomusvæði sitt yfir landið. Það fer því að rigna þegar líður á daginn, fyrst um landið suðvestanvert.
„Gæti orðið nokkuð drjúg rigning víða um land annað kvöld og aðfaranótt miðvikudags.“
Framan af miðvikudegi rignir víða enn, ef að líkum lætur, en síðdegis dregur úr vætunni.
„Þegar litið er á veðurkort fyrir vikuna sem nú er að hefjast, þá [er] útlitið heilt yfir ekki það sem flestir sækjast eftir í sumarveðri. Hitatölurnar verða í lægri kantinum og búast má við frekar þungbúnu veðri með vætu í flestum landshlutum.“