Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að hann hallist að því að greiða atkvæði með vantrauststillögu Miðflokksins gegn Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra.
„Ég er grænni en rauðari,“ segir Björn Leví í samtali við mbl.is.
Hann segir þingflokkinn eiga eftir að fara yfir vantrauststillöguna og gat því ekki sagt til um það hvað þingmenn Pírata muni gera þegar kosið verður um tillöguna.
Miðað við hefð má gera ráð fyrir því að atkvæðagreiðslan verði á morgun eða hinn.
„Þetta er stjórnsýsluleg vantrauststillaga, miðað við uppleggið, og það er ansi margt á bak við þá tillögu. Þannig við komum til með að taka vel þátt í umræðunum og skoða málið út frá þeim vinkli, því hann er mjög málefnalegur,“ segir Björn Leví.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að óhætt væri að fullyrða að þingmenn Viðreisnar myndu greiða atkvæði með tillögunni.
Miðflokkurinn lagði fram tillöguna í dag og var henni dreift til þingmanna við upphafi þingfundar.
Ástæðan er framganga hennar í hvalveiðimálinu, en vegna óvenju langs tíma til leyfisveitingar af hálfu matvælaráðuneytisins stefnir allt í að engin vertíð verði hjá Hvali hf. í sumar.