Blæs á fullyrðingar mótmælenda

Frá mótmælunum þann 31. janúar, þegar lögreglan beitti piparúða gegn …
Frá mótmælunum þann 31. janúar, þegar lögreglan beitti piparúða gegn mótmælendum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan segir ekkert til í því að óeinkennisklæddur sérsveitarmaður hafi gefið fyrirmæli um að beita piparúða gegn mótmælendum við Skuggasund í maí.

Eins og fram hefur komið beitti lögregla piparúða á mótmælum í Skuggasundi þann 31. maí og við Austurvöll þann 12. júní. Nokkrir þurftu að leita upp bráðamóttöku eftir að hafa fengið mikinn úða í augun við Skuggasund.

Á dögunum hafa myndbönd Péturs Eggertz Pétursson, eins mótmælenda sem sem höfðar nú mál gegn ríkinu vegna valdbeitingar lögreglu, vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum.

Í einu myndskeiði er því haldið fram að óeinkennisklæddur lögreglumaður hafi komið fyrirmælum um beitingu piparúða á framfæri til lögreglu, þar sem lögreglumaðurinn sést gefa handbendingar sem svipa til þess þegar tekið er í gikk. Aðrir mótmælendur sem voru viðstaddir hafa einnig lýst atvikinu í samtali við mbl.is.

„Ekki að gefa ein eða nein fyrirmæli“

Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir aftur á móti að lítið sé til í þeim fullyrðingum sem koma fram í myndskeiðinu, sem hefur nú fengið yfir 17 þúsund áhorf á Instagram.

„Þetta er bara lögreglumaður sem vinnur hjá RLS [Ríkislögreglustjóra] og er ekki að gefa ein eða nein fyrirmæli. Hann er bara að ræða við lögreglumanninn,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

Aðstoðaryfirlögregluþjónninn tekur fram að fyrirmæli um beitingu piparúða hafi komið frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ekki Ríkislögreglustjóra. Umræddur lögregluþjónninn sjái um gæslu ráðamanna.

Kristján segist aftur á móti ekki vita hvað lögreglumennirnir sögðu sín á milli, en tekur fram að hann myndi ekki gefa það upp jafnvel þó hann vissi. 

Átök á milli mótmælenda og lögreglu þann 31. maí.
Átök á milli mótmælenda og lögreglu þann 31. maí. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan var þegar byrjuð að úða

Vert er að taka fram að þegar þarna er við sögu komið var lögreglan þegar byrjuð að beita piparúða á mótmælendur sem voru ofar í götunni en mótmælin skiptust í tvennt þar sem búið var að girða af báða enda Skuggasunds.

Valdbeitingin vakti mikil viðbrögð frá mótmælahópnum neðar í götunni, sem hrópuðu enn hærra fyrir vikið.

Pétur Eggerz hefur nú birt tvö samstillt myndskeið af mótmælunum margumtöluðu á YouTube-rás sinni, þar sem hann hefur samræmt nokkur mismunandi myndskeið af mótmælunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert