Búast má við seinkun á opnun fjallvega

Fjallvegir opna almennt seinna í ár en síðustu ár.
Fjallvegir opna almennt seinna í ár en síðustu ár. mbl.is/Sigurður Bogi

Opnun fjallvega í ár verður að jafnaði seinna en hefur verið undanfarin ár og er það nær alfarið vegna mikilla snjóþyngsla á hálendinu. Hefur veðurfar og þá helst snjóþyngsli mest um það að segja hvenær hægt er að opna fjallvegi á sumrin þegar snjóa leysir.

Þetta segir Elva Brá Bjarkardóttir, þjónustufulltrúi umferðarþjónustu Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is.

Meiri bið eftir opnun á hæsta hálendinu

Vegagerðin er hægt og rólega að opna fjallvegi á Suðurlandinu og er hún farin að vinna sig áfram innar í landið og norðar. 

Sprengisandsleiðin er víðfarin á sumrin og samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar frá síðustu fimm árum hefur sú leið opnað í fyrsta lagi 21. júní og í síðasta lagi 13. júlí. Vegagerðin getur ekki staðfest hvenær sú leið verður opnuð, en Elva segir það verða í seinna lagi í ár.

Hún bætir þó við að seinkun verði einnig á opnun fjallvega á norðurhluta landsins vegna hretsins sem þar hefur verið síðustu vikur.

Aðrir fjallvegir sem eru alla jafna opnaðir í fyrra falli eru Kaldi­dal­ur og Arna­vatns­heiði. Hvorug leiðin hefur verið opnuð í ár, en samkvæmt gögnum Veðurstofunnar yfir síðustu fimm ár hefur Kaldidalur að meðaltali verið opnaður 26. maí. Hefur hann í fyrsta lagi verið opnaður 4. maí og í síðasta lagi 13. júní og því ljóst að opnun hans er að dragast talsvert aftar en verið hefur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert