„Ekki hægt að selja flíkur með brunalykt“

Starfsfólk í Kúltur tekur til hendinni eftir bruna um helgina.
Starfsfólk í Kúltur tekur til hendinni eftir bruna um helgina. Mbl.is/Eyþór

Enn má finna nokkra brunalykt inni í verslunarmiðstöðinni Kringlunni eftir bruna þar um liðna helgi. Til stendur að opna verslunarmiðstöðina á fimmtudagsmorgun klukkan 10 að sögn Ingu Rutar Jónsdóttur framkvæmdastjóra Kringlunnar. Mun lokun því einungis vara í þrjá daga ef miðað er við hefðbundna opnunartíma verslunarmiðstöðvarinnar. 

Að sögn Ingu er verið er að hreinsa loftræstikerfi og skipta um síur. Á stöku stað seitla dropar enn niður í bakrýmum og þjónustugöngum austanmegin. Þá eru blásarar um allt hús til þess að ræsta loft.  

Inga Rut Jónsdóttir.
Inga Rut Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Óttast að lokað verði fram í október 

Mismikið tjón er í verslununum og á meðan sumir telja sig hafa sloppið vel þá er ekki sömu sögu að segja af öðrum. Verslunarstjóri í fataversluninni Kúltur segist óttast að ekki verði hægt að opna hana að nýju fyrr en í október. Þá segir hann að það komi honum ekki á óvart ef frekarara tjón muni koma ljós síðar í öðrum verslunum. 

„Bara við það eitt að finna lyktina og vitandi það að vatnið þarf að leita eitthvað segir manni að tjónið gæti verið mun meira en maður myndi ætla í fyrstu,“ segir Þórður Úlfar Ragnarsson, verslunarstjóri í Kúltur.

Þórður Úlfar Ragnarsson.
Þórður Úlfar Ragnarsson. Mbl.is/Eyþór

Þórður á von á því að langt verði í að hægt verði að opna Kúltur men.

„Þetta er altjón. Það þarf að taka allt niður. Öll ljós og allt á veggjunum. Ágúst er farinn, september væri óskastaða en ég er hræddur um að við náum ekki að opna fyrr en í október,“ segir Þórður.

Reitir telja tíu rekstareiningar bera skaða

Taka ber fram að í tilkynningu frá Reitum sem er eigandi Kringlunnar segir að áhrif brunans séu hvað mest á afmörkuðu svæði í Kringlunni sem spannar um 10 af um 150 rekstrareiningum í húsinu. Sjóvá tryggir Reiti en samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélaginu ber hver rekstraraðili ábyrgð á sínum tryggingum. Tjón einstakra verslana í Kringlunni er því tryggt hjá mismunandi tryggingafélögum. 

Brunalyktin berst í allt í fataskápnum

Þegar blaðamenn bar að garði var verið að pakka öllum fatnaði í versluninni niður. Á annan tug starfsmanna var að hjálpast að við að afskrá vörurnar úr kerfinu og setja í kassa. Sjáanlega spánýjar flíkurnar verða svo færðar í umsjá Varðar, tryggingafélags verslunarinnar.

„Það er ekki hægt að selja flíkur með brunalykt því það berst í allt annað í fataskápnum,“ segir Tóti.

Mikið tjón hefur orðið í fleiri verslunum á annarri hæð í Kringlunni. Eins og fram hefur komið hefur orðið mikið tjón í fataversluninni 17 og GS skór skóverslun.

Iðnaðarmenn eru að störfum í Kringlunni.
Iðnaðarmenn eru að störfum í Kringlunni. mbl.is/Eyþór

Búið að líma fyrir rifur 

Fjöldi iðnaðarmanna er að störfum í Kringlunni og víða má sjá að búið er að líma fyrir rifur á lokuðum verslunum. Væntanlega til að reyna að varna því að lykt berist inn.

Í fatabúðinni Matthildi sem einnig er á efri hæð Kringlunnar var búið að líma fyrir hurðir. Þar var starfsfólk að laga til og gera klárt fyrir opnun á fimmtudag. Þær upplýsingar fengust þaðan að eigandi ætli að ekkert tjón hafi orðið á fatnaði þar.

Starfsfólk í fataversluninni Matthildi undirbýr opnun á fimmtudag.
Starfsfólk í fataversluninni Matthildi undirbýr opnun á fimmtudag. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert