Ekki um að ræða fortakslaust bann frá árinu 2028

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir ákveðins misskilnings gæta um að nýskráning bensín- og dísilbifreiða verði óheimil árið 2028. 

Þetta sagði Guðlaugur í svari við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Spurði hvort um væri að ræða skynsamlega nálgun 

Bergþór hóf fyrirspurn sína á því að rifja upp kynningu ráðherrans frá því á föstudag á 150 áhersluatriðum varðandi loftslagsmál. Í kynningunni hafi verið sagt frá því að nýskráning bensín- og dísilbifreiða yrði óheimil árið 2028.

„Ég hef heyrt í allnokkrum úr bílgreininni síðan þessi kynning fór í loftið og þar rak menn að því er virðist heilt yfir í rogastans.“

Spurði Bergþór Guðlaug hvernig þetta samrýmdist markmiðum Evrópusambandsins og hvort Íslendingar hefðu eitthvað tæknilegt forskot sem gerði þetta raunhæft, þannig að um væri að ræða skynsamlega nálgun, umfram þær þjóðir sem meðal annar framleiða bíla sem ekki eru knúnir bensíni eða díselolíu. 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Arnþór

Gott að geta leiðrétt umræddan misskilning 

Guðlaugur fagnaði því að spurningunni hefði verið varpað fram og sagði ákveðinn misskilning á ferðinni. Til útskýringar sagði hann tillöguna ganga út á það að skoða hvaða afleiðingar það hefði að flýta banninu frá árinu 2030 til ársins 2028. 

„Það er mjög gott að hæstvirtur þingmaður skyldi koma með fyrirspurnina svo hægt sé að leiðrétta það,“ sagði Guðlaugur og bætti við: 

„Hins vegar erum við Íslendingar væntanlega í betri færum en flestir nema kannski Norðmenn þegar kemur að orkuskiptum í bílum. Það er mikil aukning á rafbílum í heiminum en margar þjóðir eiga samt við þann vanda að etja að vera ekki með græna endurnýjanlega orku til að búa til rafmagn. Það heyrir til undantekninga ef við búum til rafmagn sem er ekki hreint.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert