Hæfni 15 ára nemenda á Íslandi í skapandi hugsun er undir meðaltali OECD og standa drengir sig verr en stúlkur.
Þetta er meðal niðurstaðna úr könnun PISA á skapandi hugsun sem birtar voru í dag. Um er að ræða nýjan valkvæðan hluta PISA-könnunarinnar 2022 sem Ísland tók þátt í ásamt 63 öðrum þjóðum.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem könnun á skapandi hugsun er framkvæmd í PISA og er markmið hennar að meta skapandi hugsun sem allir einstaklingar búa yfir og nota í daglegu lífi.
Ekki er um að ræða mat á listrænum hæfileikum nemenda. Þess heldur unnu nemendur með sögu- og textahugmyndir, settu saman einföld myndræn verk og lögðu til lausnir við samfélagslegum og vísindalegum úrlausnarefnum.
Verkefnin reyndu ýmist á frumleika í hugmyndum eða færni nemenda í að meta og bæta hugmyndir.
Þátttakan var valkvæð og tóku 64 ríki þátt, þar af 28 af 38 ríkjum OECD. Frammistaða íslenskra nemenda var undir meðaltal OECD ríkjanna. Íslenskir nemendur fengu að meðaltali 30,5 stig á meðan hin OECD-ríkin fengu 33 stig.
Danmörk og Finnland voru hin tvö Norðurlandanna sem tóku þátt og var frammistaða þar betri en að jafnaði í ríkjum OECD.
Á Íslandi teljast 72% nemenda búa yfir grunnhæfni PISA í skapandi hugsun en að meðaltali í OECD-ríkjum var hlutfallið 78%.
Íslenskir nemendur sýndu betri færni í verkefnum sem reyndu á frumlegar hugmyndir og verkefnum þar sem unnið var með sögu- eða textahugmyndir, miðað við önnur verkefni.
Íslenskar stúlkur stóðu sig talsvert betur en drengir og teljast 79% þeirra hafa grunnhæfni og 27% afburðahæfni, sem er nálægt en þó undir meðaltali stúlkna í OECD-ríkjum sem voru með hlutföllin 82% og 31%.
Munurinn er meiri meðal drengja þar sem 65% hafa grunnhæfni og tæplega 16% afburðahæfni en samsvarandi hlutföll í ríkjum OECD eru 75% og 23% að jafnaði.
Íslenskir nemendur hafa sterka trú á eigin getu til að vera skapandi og til að leysa verkefni með skapandi hætti.
Meirihluti þeirra var sammála því að þeir fái tækifæri og hvatningu til að vera skapandi í kennslutímum og var sú upplifun algengari hérlendis en að jafnaði í OECD-ríkjunum.
Miðað við jafnaldra þeirra í ríkjum OECD sjá íslenskir nemendur að jafnaði fleiri tækifæri til sköpunar í ólíkum greinum og trúa því frekar að sköpunargáfu sé hægt að þjálfa og efla.
Mennta- og barnamálaráðuneytið kveðst vinna að aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðum könnunarinnar í samstarfi við breiðan hóp hagsmunaaðila.
Farið verði yfir viðbótarniðurstöður PISA um skapandi hugsun sem nú liggi fyrir og aðgerðaáætlunin uppfærð með tilliti til þeirra.
Áætlunin verði kynnt til samráðs á föstudag og aðgerðunum hrint í framkvæmd í innleiðingu 2. áfanga menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 sem kynntur verður í haust.