Íþróttahúsið Hópið rifið – „Mikil eftirsjá“

Hópið í Grindavík.
Hópið í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar hefur heimilað sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að hefja undirbúningsvinnu við niðurrif fjölnota íþróttahússins Hópsins. 

Þetta kemur fram í fundargerð.

Íþróttahúsið, sem var byggt árið 2008, fór illa út úr jarðhræringunum í Grindavík og myndaðist stór sprunga undir gervigrasvelli þess.

Ekkert annað í stöðunni

„Það var ljóst fyrir einhverju síðan að það er altjón á húsinu. Húsið liggur undir þessari Hóps-sprungu og þetta lá algjörlega ljóst fyrir,” segir Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, spurð út í aðdraganda ákvörðunarinnar.

Hún segir ekkert annað í stöðunni en að rífa húsið, meðal annars til að koma í veg fyrir að lausar stálplötur og fleira fjúki þaðan næsta vetur.

Grindavíkurbær fékk greiddar tjónabætur fyrir húsið frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands. Spurð kveðst Ásrún Helga ekki hafa upplýsingar um kostnaðinn við niðurrifið. 

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Hefjast handa á næstunni

Hún býst við því að hafist verði handa við niðurrifið á næstu vikum. Einhverjir aðilar hafa sýnt áhuga á að annast verkefnið. Einnig kom til umræðu á bæjarstjórnarfundinum að endurnýta eitthvað af efni hússins.

„Þetta hús var svo frábært fyrir okkur. Þarna fengu börn að leika sér og þetta var félagsmiðstöð barnanna. Það er mikil eftirsjá af þessu húsi,” bætir hún við en þar fóru meðal annars fram leikir og æfingar í yngri flokkum í knattspyrnu.

Grunnskóli líklega rifinn líka 

Að sögn Ásrúnar Helgu er von á fleiri fregnum af niðurrifi á næstunni, enda hefur orðið altjón á mörgum húsum í bænum.

Til að mynda verður það skoðað mjög vel hvort nýbygging Hópsskóla, sem hýsti deild fyrir yngri grunnskólabörn, verður rifin en hún var tekin í notkun árið 2009. Sú bygging er staðsett á sömu sprungu og Hópið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert