Konunni haldið niðri og dætur hennar teknar

Eina nóttina komu fjölskyldumeðlimir inn um gluggan hjá konunni og …
Eina nóttina komu fjölskyldumeðlimir inn um gluggan hjá konunni og tóku börnin hennar. Lögreglan var mætt á vettvang áður en keyrt var í burtu með þau. Samsett mynd

Átta Palestínumenn hafa verið ákærðir vegna stórfelldra brota í nánu sambandi í Reykjanesbæ. Um er að ræða líflátshótanir, umsátur og fleira af hálfu fjölskyldu gegn eigin fjölskyldumeðlim.

Fjölskyldumeðlimurinn er kona sem er tveggja barna móðir. Hún byrjaði með öðrum manni en eigin barnsföður og er það ástæða ofsóknanna. Fjölskyldumeðlimir hennar reyndu meðal annars að nema á brott dætur hennar.

Heimildir mbl.is herma að fjölskyldan sé frá Palestínu. Í ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem var þingfest í héraðsdómi Reykjaness 31. maí, kemur fram að konan hafi á tímabilinu frá 14. júní 2022 til 17. febrúar 2023 þurft að líða ítrekaðar líflátshótanir.

Vísir greindi fyrst frá. 

Hefðu slátrað henni væru þeir í arabalandi

Faðir konunnar greindi lögreglu frá því, við skýrslutöku á lögreglustöðinni á Hringbraut, að ef bróðir konunnar hefði myrt hana, hefði það verið allt í lagi.

Konan ætti skilið refsingu í formi þess að vera lamin og fætur hennar og hendur brotnar.

Einnig greindi faðirinn frá því að „ef hann og synir hans væri í einhverju arabalandi þá væru þeir löngu búnir að slátra“ henni.

Sló dóttur sína og tók farsíma

14. júní 2022 reiddist bróðir konunnar henni vegna ljósmynda sem hann sá af henni. Var hún kölluð illum nöfnum og svo kastaði hann kústskafti og tveimur stígvélum í eða í áttina að henni. Ástandið versnaði þann 27. nóvember en þá fór móðir konunnar ásamt mági konunnar óboðin inn í íbúð hennar.

Mágurinn greip upphandleggi konunnar á meðan móðir hennar tók farsímann af henni og sló hana í andlitið með flötum lófa.

Eftir það skipuðu þau dætrum konunnar að koma með sér heim, þar sem þau hreinsuðu gögn af farsíma konunnar með því að taka úr honum SIM – kort og klippa þau í sundur.

Konan var búsett í Reykjanesbæ.
Konan var búsett í Reykjanesbæ. mbl.is

Fóru inn um glugga til að taka börnin

Aðfaranótt 5. desember 2022 fór systir konunnar, móðir og mágur inn um glugga í íbúðinni hjá konunni og reyndu að nema á brott dætur hennar. Í ákærunni kemur fram að börnin hafi verið í rúmum sínum á nærfötunum. 

Konunni var haldið niðri af móður sinni á meðan mágur hennar tók eina dóttur konunnar út í bifreið sína. Konan reyndi svo að nálgast bifreiðina til að ná í dóttur sína en þá var bílnum læst og henni haldið niðri.

Á meðan henni var haldið niðri var svo náð í hina dóttur hennar en skömmu seinna var lögreglan mætt á vettvang.

Á meðan þessu stóð sögðu ákærðu við stúlkurnar að þær ættu að segja að þær vildu frekar búa hjá pabba sínum, ömmu og afa, en ekki mömmu sinni.

Veittust að kærastanum og hótuðu honum lífláti

Þann 22. janúar 2023 komu tveir bræður konunnar, fósturbróðir og barnsfaðir að dvalarstað konunnar og veittust að kærasta konunnar á bílastæði og var hann kýldur með krepptum hnefa. Höfðu mennirnir veitt honum eftirför um nokkra stund.

Einn reyndi að draga kærastann úr bifreiðinni en hann náði að læsa sig inni.

Þá reyndu mennirnir að brjótast inn í bílinn með því að berja grjóti á rúðurnar og hótuðu þeir þá einnig manninum lífláti. Þeir fóru þó á brott þegar þeir heyrðu að lögreglan væri á leiðinni, konan hafði ýtt á neyðarhnapp og nágranni einnig hringt á lögregluna. Seinna um kvöldið barst kærastanum símtal þar sem honum var hótað lífláti.

Óttaðist að hún og dæturnar yrðu fórnarlömb heiðursmorða

Fram kemur í ákærunni að afleiðingar háttsemi ákærðu hafi meðal annars verið þær að konan bjó við viðvarandi ógnarástand og hún neyddist um margra mánaða skeið til að fara huldu höfði.

Hún óttaðist um að hún og/eða dætur hennar yrðu fórnarlömb heiðursmorða og að dætur hennar yrðu numdar á brott.

Konan þurfti að dvelja á Kvennaathvarfinu í nokkra mánuði með dætur sínar og misstu börnin úr skóla og leikskóla vegna öryggisráðastafanna.


Fjölskyldumeðlimirnir eru ýmist ákærðir fyrir líkamsárásir og/eða brot í nánu sambandi, því til vara brot á barnaverndarlögum.

Í einkaréttarkröfum er alls krafist 12 milljóna króna í miskabætur frá hinum ákærðu fyrir konuna og ólögráða börn hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert