Flokkur fólksins mun ekki verja Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra vantrausti.
„Það mun enginn verja þessa ríkisstjórn eða neinn ráðherra hennar vantrausti,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í samtali við mbl.is spurð hvort hún telji að þingmenn flokksins muni verja Bjarkeyju vantrausti.
„Það er alveg kýrskýrt.“
Þingmenn Miðflokksins lögðu fram vantrauststillögu á Bjarkeyju Olsen á þingi í dag. Bergþór Ólason, þingmaður flokksins, segir ástæðuna vera framgöngu ráðherra í hvalveiðimálinu.
Hvalur óskaði eftir endurnýjum leyfis til veiða á langreyðum 30. janúar og var umsóknin fyrst afgreidd tæpum fjórum og hálfum mánuði síðar. Þá gildir leyfið aðeins út yfirstandandi ár.
Ertu bjartsýn á vantrauststillagan nái fram að ganga?
„Nei ekki frekar en venjulega. Þeir [stjórnarflokkarnir] eru með mjög mikinn meirihluta, en það verður snúið samt sem áður fyrir sjálfstæðismenn að verja hana vantrausti, en ég býst við að þeir geri það,“ segir Inga og bætir við:
„Það er líka snúið fyrir þá [sjálfstæðismenn] að sprengja þetta stjórnarsamstarf núna þegar flestir stjórnarflokkarnir virðast vera með verulega lítið fylgi og lítið traust til þeirra er borið. Þau reyna að hanga á þessum völdum eins og hundar á roði þannig að þau munu væntanlega verja hana vantrausti.“
Aðspurð segir Inga prinsipp mál að fara fram með tillöguna þrátt fyrir að litlar líkur séu á að hún nái fram að ganga. Þá minnir hún á að tillagan komi frá Miðflokknum vegna þess að flokksmönnum þess flokks hafi fundist Bjarkey fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti.
„Það er nú kannski farið að verða meiri ákall á að þessir blessuðu ráðherrar fari nú aðeins að axla ábyrgð af og til á verkunum sem þeir vinna,“ bætir Inga við og heldur áfram:
„En meginreglan er svo sem ekki sú. Við höfum að minnsta kosti ekki séð það raungerast hérna að ráðherrar axli ábyrgð.“
Inga rifjar upp að hún hafi lagt fram vantrauststillögu á alla ríkisstjórnina um daginn þar sem þrír ráðherrar voru undir en ekki bara einn.
„Það var ekki bara Svandís sem átti skilið sérstaka umfjöllun á sínum tíma heldur í rauninni líka Bjarni Benediktsson og Guðbrandur Ingi Guðbrandsson.“
„Það er nú eins og það sé að ganga vírus þarna inni hjá VG. Það er einhver valdaníðsluvírus sem ríður röftum hjá Vinstri grænum, það er nokkuð ljóst.“
Spurð hvort hún telji ráðherrar Vinstri grænna vera að grípa til örþrifaráða til að bjarga flokknum frá því að falla af þingi svarar Inga:
„Já, en ég meina þeir eru alltaf að brjóta lög eða fara á svig við lög. Þeir bjarga sér ekki á því að brjóta lög, þetta er bara svo mikill valdahroki.“