Leyfislausir bílstjórar komu mest á óvart

Unnar segir auðvelt að halda leyfamálum í lagi.
Unnar segir auðvelt að halda leyfamálum í lagi. mbl.is/Unnur Karen

Fjöldi leigubílstjóra var tekinn nýliðna helgi vegna skorts á tilskyldum leyfum og ýmsu öðru í eftirlitsrassíu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 48 bílstjórar af þeim 105 sem voru teknir fyrir eiga nú yfir höfði sér kæru. Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir fjöldann hafa komið á óvart.

„Kom okkur gríðarlega á óvart, við getum alveg viðurkennt það. Flest af þessu eru smávægileg atriði reyndar en samt, við áttum ekki von að þau yrðu svona mörg,“ segir Unnar en fleiri lögregluembætti, Skatturinn og Samgöngustofa komu til dæmis að aðgerðunum.

Ná vonandi til stærri hóps

Þá verði eftirlitinu haldið áfram á næstunni en meira en 900 leyfi hafa verið gefin út til leigubílaaksturs hér á landi.

„Við munum halda áfram eftirlitinu og reyna að ná tali af eins mörgum og unnt er á næstu dögum og svo er spurning hvort við gerum svona öðru hvoru stikkprufur og vinnum með það áfram. En það segir sig sjálft, 900 leyfi, það er risastórt verkefni að gera það þannig að við náum kannski ekki utan um hvern einn og einasta en við kannski náum til stærri hóps en við erum búin að ná til núna. Við verðum náttúrulega næstu daga í þessu, eins og ég segi og vonandi náum við eitthvað að tala við einhverja sem við erum ekki búin að tala við nú þegar,“ segir Unnar.

„Það er svo einfalt að hafa þetta í lagi“

Var eitthvað sem kom einna helst á óvart við eftirlitsstörfin?

„Það sem að kom okkur kannski mest á óvart er að menn skuli vera að keyra án leyfis, við reiknuðum með að það væri ekki, og hvað þá að þeir væru ekki skráðir sem leigubílar. Það komu upp svoleiðis tilvik í þessu eftirliti um helgina. Síðan eru svona smávægilegu atriðin sem komu okkur líka á óvart af því að það er svo einfalt að hafa þetta í lagi, þetta eru ekkert flókin atriði, til þess að geta uppfyllt öll skilyrðin samkvæmt lögunum.

En það er auðvitað rétt sem þú segir, þetta er gríðarlegur fjöldi af leyfum og mikill fjöldi var í umferð um helgina og við náðum tali af þessum 105 en samt er fullt af bílum sem við náðum ekki tali af, sem við vorum að sjá í umferðinni. Þannig þetta er gríðarleg fjölgun sem hefur verið núna síðustu ár,“ segir Unnar.

Eftirlit með ómerktum bifreiðum næst á dagskrá

Lögreglan skoði nú hvernig sé best að hafa eftirlit með ómerktum bifreiðum sem standi í akstri sem þessum.

 „Það er í skoðun hjá okkur hvað við getum gert þar og hvernig við getum unnið það verkefni, það er talsvert flóknara en þetta og við þurfum að vinna það með fleiri stofnunum líka, sérstaklega Samgöngustofu.  [...] við ætlum að byrja á þessu allaveganna og sjá svo hvað við getum gert með hitt. En svo það komi fram að þá er eftirlitið líka eftir ábendingum frá hagaðilum leigubílstjóra eins og Frama, eins og þú nefndir áðan og fleiri, bílstjórunum sjálfum og síðan einstaklingum,“ segir Unnar. Um samvinnuverkefni sé að ræða.

Að einhverju leyti samvinnuverkefni?

„Í rauninni, reyna að ná utan um þetta og koma mönnum á réttan stað með aðhaldi og smá eftirliti.“

„Það er mjög auðvelt að hafa þetta í lagi og það er hægt að hafa alla leigubíla á Íslandi í topp standi ef menn bara fara eftir reglunum og þá er þetta mjög einfalt þannig lagað og lítið mál að kippa í liðinn,“ segir Unnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka