Myndskeið: Gleymdist á útskriftarathöfn HÍ

Dýrley fékk afhent autt útskriftarskírteini eftir að hafa beðið upp …
Dýrley fékk afhent autt útskriftarskírteini eftir að hafa beðið upp á sviði í dágóða stund. Ljósmynd/Aðsend

Dýrley Dröfn Karlsdóttir upplifði martröð margra útskriftarnema þegar gleymdist að lesa nafn hennar upp á útskriftarathöfn Háskóla Íslands á laugardaginn. 

„Ég var að útskrifast með BA-gráðu í dönsku og var ein í þeim flokki þannig ég var alveg lúmskt viðbúin því að eitthvað kæmi upp á, að ég myndi detta eða eitthvað,“ segir Dýrley.

Hún taldi sig vera komin framhjá öllum hindrunum varðandi athöfnina þegar átti að koma að henni í röðinni. 

„En síðan gerðist það að þau gleymdu í rauninni að segja nafnið mitt.“

Vildi ekki fara aftur upp á svið

Dýrley lýsir því hvernig þegar kom að henni í röðinni til að útskrifast var nafn hennar ekki lesið upp heldur nafn þess sem á eftir henni kom og svo koll af kolli þar til búið var að útskrifa alla BA-nemendur í ensku. 

„Þegar ég var búin að standa þarna eins og illa gerður hlutur í einhverjar mínútur fékk ég á endanum nafnlaust skjal og uppskar þvílíkt lófatak. Það var ekkert smá óþægilegt,“ segir Dýrley en hún birti myndskeið af atburðarásinni á samfélagsmiðlinum TikTok. 

Dýrley var kát með að fá loks rétt skírteini.
Dýrley var kát með að fá loks rétt skírteini. Ljósmynd/Aðsend

Þegar hún komst loks niður af sviðinu var hún leidd baksviðs þar sem í ljós kom að skírteinið hennar hafði verið í bunkanum eftir allt saman.

Hún fann þó ekki fyrir þörfinni til að fara aftur á svið:

„Þegar ég var baksviðs og fékk skírteinið loksins í hendurnar var mér boðið að fara aftur upp á svið en ég afþakkaði það pent. Ég var alveg búin að vera nóg uppi á sviði.”

Lýsir náminu ágætlega

Dýrley sýnir mistökunum mikinn skilning en telur nokkrar ástæður geta legið að baki þeim. Hún nefnir bæði þá staðreynd að hún hafi verið ein að útskrifast með BA-gráðu í dönsku og að sú sem var á undan henni í röðinni hafi verið að útskrifast með tvöfalda BA-gráðu sem olli mögulega ruglingi. 

Dýrley kveðst ekki fúl út í háskólann, sem hefur beðið hana afsökunar, en segir jafnframt að atburðurinn hafi verið lýsandi fyrir skólagöngu sína: 

„Þetta lýsir náminu ágætlega því það er ekkert mikil aðsókn í BA-nám í dönsku og allt mjög frjálslegt. Það að ég hafi fengið skírteinið mitt baksviðs var í rauninni punkturinn yfir i-ið á námsleið minni.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka