Þrír vegir til viðbótar opnaðir á hálendinu

Kort af Íslandi sem sýnir ástand fjallvega.
Kort af Íslandi sem sýnir ástand fjallvega. Kort/Vegagerðin

Vegagerðin hefur opnað fyrir umferð um þrjá hálendisvegi til viðbótar við þá sem höfðu verið opnaðir. Um er að ræða Lakagígaveg (F207), Landmannaleið (F225) og Veiðivatnaleið (F228). Þetta kemur fram á nýju hálendiskorti sem birt var í dag, en það gildir frá og með morgundeginum.

Meðal þeirra hálendisleiða sem þegar hafði verið búið að opna um umferð á voru Kjalvegur og Sigölduleið inn í Landmannalaugar.

Fjöldi svæða enn lokuð

Enn er Sprengisandur lokaður sem og svæðið norðan Vatnajökuls.

Kaldidalur og Arnavatnsheiði eru einnig enn lokuð svæði, en þessar leiðir eru oft með þeim fyrstu til að opna á sumrin og jafnan búið að opna þær á þessum tíma árs.

Allur akstur innan skyggðra svæða er bannaður þar til annað verður auglýst. Er það vegna hættu á vegaskemmdum. Kortið segir aðeins til um hvar umferð er heimil eða óheimil vegna aurbleytu en segir ekki til um færð utan skyggðra svæða sem er breytileg og háð aðstæðum hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert