Vegagerðin hefur opnað fyrir umferð um þrjá hálendisvegi til viðbótar við þá sem höfðu verið opnaðir. Um er að ræða Lakagígaveg (F207), Landmannaleið (F225) og Veiðivatnaleið (F228). Þetta kemur fram á nýju hálendiskorti sem birt var í dag, en það gildir frá og með morgundeginum.
Meðal þeirra hálendisleiða sem þegar hafði verið búið að opna um umferð á voru Kjalvegur og Sigölduleið inn í Landmannalaugar.
Enn er Sprengisandur lokaður sem og svæðið norðan Vatnajökuls.
Kaldidalur og Arnavatnsheiði eru einnig enn lokuð svæði, en þessar leiðir eru oft með þeim fyrstu til að opna á sumrin og jafnan búið að opna þær á þessum tíma árs.
Allur akstur innan skyggðra svæða er bannaður þar til annað verður auglýst. Er það vegna hættu á vegaskemmdum. Kortið segir aðeins til um hvar umferð er heimil eða óheimil vegna aurbleytu en segir ekki til um færð utan skyggðra svæða sem er breytileg og háð aðstæðum hverju sinni.