Tilkynnt var um innbrot í verslunarhúsnæði í Reykjavík laust fyrir klukkan hálfþrjú í nótt.
Farið hafði verið inn í húsnæði þar sem starfsemi var ekki í gangi og virtust þjófarnir ekki hafa haft erindi sem erfiði.
Upp úr klukkan hálffjögur í nótt var tilkynnt um innbrot í annað húsnæði í miðbæ Reykjavíkur. Búið var að spenna upp glugga en ekki er vitað hvort þjófarnir komust á brott með einhver verðmæti þar sem lögreglan mætti á vettvang skömmu síðar.
Lögreglan fékk tilkynningu um þriðja innbrotið um fjögurleytið í nótt. Þá var tilkynnt um innbrot í verslun og er málið í rannsókn.
Ekki er vitað hvort innbrotin þrjú tengist en rannsókn þeirra er á frumstigi.
Tilkynnt var um einstakling í annarlegu ástandi fyrir utan fjölbýlishús í Reykjavík um tvöleytið í nótt. Skömmu síðar bárust lögreglu fleiri tilkynningar um einstaklinginn. Að lokum þurfti að vista hann í fangageymslu vegna ástands, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Um miðnætti var einn einstaklingur stöðvaður í akstri grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann var handtekinn og fluttur á stöð í hefðbundið ferli og sýnatöku.