Slökkvilið Grindavíkur, ásamt fleiri viðbragðsaðilum, býr sig nú undir að hefja hraunkælingu við varnargarðinn við Svartsengi.
Lagnir hafa verið lagðar frá orkuverinu og að umræddum stað í varnargarðinum til þess að tryggja stöðugt vatnsflæði. Klukkan 20.36 var slökkviliðið byrjað að hleypa vatni á lagnirnar.
„Staðan er þannig að við erum hérna með nokkrar jarðýtur og jarðvinnuvélar í að ýta jarðvegi upp í garðinn þar sem það fór að gægjast hraun yfir. Erum að styrkja hann og erum svo að fara í það að sprauta vatni í það líka og kæla hraunið sem er sambland þarna í þessum veikleika,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Rétt um tuttugu viðbragðsaðilar eru á svæðinu, þar á meðal frá almannavörnum, brunavörnum Suðurnesja og slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
„Það fór aðeins að gægjast yfir hraun, fór aðeins yfir garðinn, þannig við erum bara að reyna að stoppa það að hraunflæðið verði af einhverju magni yfir garðinn. [...]Við ætlum að fara að sprauta á það hraun sem er komið yfir, sem vélarnar eru að ýta möl í, við erum bara að hjálpast að, bæði jarðýtur og vatn að halda þessu niðri,“ segir Einar.
Gríðarlegt magn af vatni þarf til þess að stunda hraunkælingu.
„Við erum að leggja lagnir frá orkuverinu í Svartsengi og erum með stóra og öfluga bíla frá Isavia sem við ætlum að fasttengja og við erum að dæla vatni alla leið upp á staðinn,“ segir Einar en hraunkæling sé langtímaverkefni.
„Við verðum alla vegana í alla nótt.“
Spurður hvað þeir geti verið lengi að og hvar mörkin liggi segir Einar að þeir verði að fara gullinn milliveg.
„Já, við reynum bara að gera allt sem við getum gert innan skynsamlegra marka án þess að tefla mannskap í of mikla hættu þannig við reynum að sigla hinn gullna meðalveg. Það eru miklir hagsmunir í húfi að reyna að halda þessu niðri. Ef að hraunið færi að flæða yfir garðinn, þá erum við kominn inn fyrir varnargarðana við orkuverið Svartsengi og þá er verksmiðjan sem slík næst í röðinni,“ segir Einar.
Hann segist ekki telja að hraunkæling sem slík hafi farið fram síðan í Vestmannaeyjagosinu en viðbragðsaðilar viti þó alveg hvað þurfi til.
„Við erum ekki í neinni tilraunastarfsemi við vitum hvað við erum að gera,“ segir Einar að lokum.