Vinnubrögðin „ævintýralega léleg“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Bjarni Jónsson.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Bjarni Jónsson. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Kristófer

Þingmenn stjórnarandstöðunnar á Alþingi gagnrýndu harðlega hvernig staðið var að fundi sem fór fram í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á föstudagskvöld þar sem nefndarmönnum var greint frá því að fresta ætti afgreiðslu samgönguáætlunar. Formaðurinn var sakaður um ævintýralega léleg vinnubrögð.

„Kastað í ruslið“

„Á föstudagskvöld klukkan hálf sjö er haldinn fundur í umhverfisnefnd þar sem að meirihlutinn tilkynnir minnihlutanum um það að stærsta verkefni sem nefndin hefur haft til meðferðar í allan vetur verði kastað í ruslið. Þetta verði ekki eitt af þeim málum sem verði afgreidd í haust og ég held að ástæðurnar liggi öllum ljósar fyrir; ágreiningur í meirihlutanum einu sinni sem oftar. Ég vil gera athugasemdir við það að til þessa fundar var boðað á föstudagskvöldi með hálftíma fyrirvara. Formaður nefndarinnar hringdi sjálfur í nefndarmenn og þeir sem ekki náðu síma þeir misstu einfaldlega af fundi. Þetta er eitt stærsta mál Alþingis í vetur og þessi vinnubrögð eru svo ævintýralega léleg að ég óska eftir því að fá viðbrögð forseta þingsins um það hvort þetta sé boðlegt að formanni nefndar að haga sér með þessum hætti,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, en hún er jafnframt fyrsti varaformaður nefndarinnar. 

Fundarboð hafi verið sent með tölvupósti og símleiðis

Bjarni Jónsson, þingmaður VG og formaður nefndarinnar, sagði að ekki hefði reynst unnt að koma fyrr á þeim fundi sem frestað hafði verið í hádeginu á föstudaginn. Jafnframt hefði verið mikilvægt að geta upplýst sem fyrst um þá niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að fresta afgreiðslu samgönguáætlanir til haustsins. Fundarboðið hefði bæði verið sent í tölvupósti og símleiðis. 

„Nefndarmönnum hefði mátt vera ljóst að stefnt var að því að fundur yrði síðar um daginn en miður ef það hefur ekki verið nægilega skýrt og óheppilegt. Æskilegt væri að boða fund eins fljótt og hægt væri að afloknu þingfundi fremur mun gera síðar að kveldi eða fjórum dögum síðar. Og starfsáætlun Alþingis hefur verið tekin úr sambandi og ljóst að við slíkar aðstæður, síðustu daga þingsins, er að oft er fundað með skömmum fyrirvara á ýmsum tímum. Við hljótum að sameinast um það hér að klára sem mest að málum bæði meirihluta og minnihluta.“

„Hann er ekki að lýsa atvikum eins og þau voru“

Sigríður steig aftur í pontu eftir ræðu Bjarna þar sem hún sagði hann ekki lýsa atvikum með réttum hætti. „Það var enginn tölvupóstur sendur. Það var hringt í nefndarmenn með hálftíma fyrirvara. Formaður hafði afboðað fund í hádeginu og hafði ekki svarað ítrekuðum póstum um það hvort til stæði að funda. Hann er ekki að lýsa atvikum eins og þau voru og er að sýna nefndinni, en ekki síður verkefnunum sínum ævintýralega óvirðingu. Hann veit hvernig þetta var unnið af hans hálfu og ábyrgðin er hans á því að vinna með þessum hætti,“ sagði Þorbjörg Sigríður. 

Grundvallaratriði

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði að sér þætti sérstakt hvernig forseti þingsins væri að afgreiða málið á fundi þingsins „vitandi nákvæmlega í hvernig liggur í málum.“

„Auðvitað er það þannig að þó að það sé búið að kippa starfsáætlun úr sambandi og þó að það þurfi stundum að funda með stuttum fyrirvara, þá er það algjört grundvallaratriði að þeir þingmenn sem sitja í viðkomandi nefnd séu boðaðir á fundinn. Það er algjört grundvallaratriði. Og þegar fundað er með hálftíma fyrirvara og það næst ekki í alla fundarmenn vegna þess að menn fengu einmitt ekki neinn fyrirvara á þessu, þá er auðvitað verið að ganga á rétt þingmanna og það vill nú þannig til að það er verið að ganga á rétt þingmanna stjórnarandstöðunnar í þessu tilfelli.“

Alvarlegt að skilja fólk út undan

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði það skipta miklu máli að reglur í kringum fundarboðun væru skýrar.

„Það er rosalega alvarlegt að skilja fólk út undan í nefndarstörfum. Það er rosalega alvarlegt. Mér finnst ekki gott að forseti taki það ekki alvarlegra en þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert