„Alltaf leiðinlegt og erfitt"

Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna. mbl.is/Hari

„Þetta er alltaf leiðinlegt og erfitt,“ segir formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) um uppsagnir 57 flugmanna hjá Icelandair fyrir helgi. Hann segir flugmenn þó vana árstíðabundnum uppsögnum og telur ekki að um krísu sé að ræða. 

Á föstudaginn tilkynnti Icelandair um fyrirhugaðar uppsagnir 57 flugmanna hjá félaginu. Flug­menn­irn­ir munu láta af störf­um 1. októ­ber og munu 26 flug­stjór­ar sömuleiðis fær­ast í stöðu flug­manna tíma­bundið.

Í samtali við mbl.is á sunnudaginn sagði Ásdís Ýr Pét­urs­dótt­ir, for­stöðumaður sam­skipta hjá Icelanda­ir, að uppsagnirnar tengdust árstíðarsveiflum og gert væri ráð fyrir að ráða flugmennina aftur næsta vor. 

Vanir árstíðarsveiflum

„Þetta er alltaf leiðinlegt og erfitt, sérstaklega fyrir þá sem verða fyrir því að missa vinnuna. En þetta eru tímabundnar uppsagnir og við erum svo sem mjög vön þessu, því miður,“ segir  Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA.

Jón, sem fundaði með flugmönnum í gær, kveðst vongóður um að það takist að ráða flugmennina að ári líkt Icelandair hafi gefið út. 

„Sagan sýnir það að jafnvel þó að við höfum gengið í gegnum mjög djúpar lægðir að þá er flugið bara þannig að það kemur sér á lappirnar aftur og er gríðarlega mikilvægt fyrir bæði Ísland sem þjóð og efnahagslífið allt saman,“ segir Jón og bendir á að eftirspurn eftir flugi minnki um 32% í Evrópu yfir vetrarmánuðina og að hjá Icelandair sé sveiflan enn meiri.

Fylgjast vel með

Spurður hvort félagsmenn hafi áhyggjur af fækkun ferðamanna á landinu segir Jón: „Jú,jú, auðvitað fylgjumst við vel með framvindu mála í flugi ekki bara ferðamönnum til Íslands heldur líka hvernig eftirspurn eftir flugi er að þróast á Atlantshafi, í Norður-Ameríku, Asíu og öðrum mörkuðum. Allt hefur þetta áhrif.“

Hann telur þó ekki að uppsagnirnar tengist þessu: „Enn sem komið er, er þetta ekki stór krísa heldur árstíðabundin sveifla sem við vitum að er fyrir hendi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert