Austurstræti mun taka breytingum í sumar þegar gatan verður að göngugötu. Pósthússtræti verður á sama tíma breytt í vistgötu.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að breytingarnar nái einnig til Veltusunds og hluta Vallarstrætis og Hafnarstrætis. Mun breytt fyrirkomulag taka gildi um mánaðamótin og verður í gildi til 1. október.
Þetta var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í morgun og er hluti af því að koma í framkvæmd framtíðarsýn fyrir umferðarskipulag Kvosarinnar sem var samþykkt árið 2020, að því er segir í tilkynningu.
Haft er eftir Dóru Björt Guðjónsdóttur, formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, að fleiri séu jákvæðir í garð göngugatna en neikvæðir.
„Í öllum hverfum eru langtum fleiri jákvæð en neikvæð gagnvart göngugötum og þeim fjölgar sem telja að göngusvæðin megi vera stærri. Við hlustum á íbúa og tökum þessu sem hvatningu til þess að fjölga göngusvæðum í borginni.“
Samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg eru 72% borgarbúa jákvæðir í garð göngugatna í miðborg Reykjavíkur og neikvæðni í garð þeirra er sögð fara dvínandi.