Bílastæði við Keflavíkurflugvöll fyllast hratt og verða að öllum líkindum vel nýtt í sumar. Stefnir í þriðja stærsta ár í sögu flugvallarins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem hyggjast leggja leið sína í gegnum flugvöllinn í júní, júlí og ágúst eru hvattir til að bóka bílastæði við flugstöðina fyrir fram til að tryggja bílnum stæði.
Þá er tekið fram að því fyrr sem stæðið er bókað því betri kjör fáist.
Gestir eru hvattir til að mæta snemma fyrir flug í sumar þar sem töluverð umferð verður um flugvöllinn. Farþegaspá KEF áætlar að samtals muni 8,5 milljónir gesta fara um völlinn á árinu og að árið í ár verði það þriðja stærsta í sögu flugvallarins.
Yfir 60 sjálfsafgreiðslustöðvar eru víðs vegar í flugstöðinni sem gestir eru hvattir til að nota til að innrita sig fyrir flug.
Með þessu geta gestir notið ferðalagsins og þess sem flugvöllurinn hefur upp á að bjóða í verslun og veitingum frekar en að bíða í röð.
Nýtt bílastæðakerfi var tekið í notkun síðasta sumar. Bókunarferlið er enn það sama og áður en bílastæðið er áfram bókað á vefsíðu KEF.
Nýja bílastæðakerfið virkar þannig að ekið er inn og út af bílastæðunum, hliðin opnast sjálfkrafa og myndavél tekur mynd af bílnúmerinu. Ekki er lengur þörf á að taka miða, skanna QR-kóða eða nota greiðslukort til að opna hliðin á bílastæðunum. Aðrar greiðsluleiðir í boði.
Auk bílastæðaþjónustu KEF standa gestum til boða aðrar samgönguleiðir til og frá flugvellinum. Þar má nefna ferðir með rútum, bílaleigubílum, leigubílum eða strætisvögnum.