Býst ekki við því að þurfa að kæla hraunið í dag

Slökkviliðsmenn í Grindavík hafa slegist við rjúkandi hraunið sem skreið …
Slökkviliðsmenn í Grindavík hafa slegist við rjúkandi hraunið sem skreið yfir Svartsengisgarðinn í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er búist við því að slökkviliðsmenn í Grindavík haldi áfram að kæla hraunið sem náði yfir varnargarðinn við Sýlingarfell. Hraunrennslið er hægfara en virknin í síðasta gígnum í eldgosinu við Sundhnúk helst samt stöðug.

Hraunspýja skreið yfir varnargarð í gær og var gripið til þess ráðs að kæla hraunið.

„Eins og staðan er núna stafar ekki hætta af að þetta fari lengra,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við mbl.is. Slökkviliðið hafi náð að stöðva rennsli hraunspýjunnar um klukkan 19 í gærkvöldi.

Fyrsta hraunkæling frá Heimaeyjargosinu

Í raun var hraunkælingin gerð í tilraunaskyni. Viðbragðsaðilar vildu sjá hvort hægt væri að nota búnað slökkviliðsins til þess að kæla hraunið.

Almannavarnir eiga reyndar von á að fá sérstakan hraunkælingarbúnað til landsins, þó ekki sé vitað hvenær hans sé að vænta, að sögn Hjördísar.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ, bendir á í samtali við mbl.is að þetta sé í fyrsta sinn sem hraunkæling hefur verið prófuð síðan í Heimaeyjargosinu 1973. Hraunkælingin í Vestmannaeyjum hafi þó verið mun umfangsmeiri.

„Þetta er á litlum skala,“ segir hann um hraunkælinguna. „Miðað við það sem gert var í Vestmannaeyjum er þetta pínulítið enn sem komið er.“

Hraun rennur í gegnum poll sunnan við Sýlingarfell.
Hraun rennur í gegnum poll sunnan við Sýlingarfell. Kort/mbl.is

Hvernig náði hraunið yfir varnargarðinn?

Myndaðist greiðari leið fyrir hraunið upp á varnargarðinn eftir að hraunpollur suðaustan Sýlingarfells brast laugardaginn 8. júní og hraunrennslið tók skyndiáhlaup yfir Grindavíkurveg.

Þá náði hraun­straum­ur­inn frá eld­gos­inu í Sund­hnúkagígaröðinni sömu hæð og varnarveggurinn og lítil hrauntunga skvettist upp á L1-varnargarðinn, sem er norðan Svartsengis en austan Grindavíkurvegar.

„Fyrir nokkrum dögum var hraunið búið að ná það hátt að það var komið upp á garðinn. Svo kom þarna smá spýja yfir hann,“ segir Magnús Tumi.

Skjálftavirknin lítið breyst

Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að virknin í gígnum á Sundhnúkagígaröðinni sé stöðug.

Þá sé hraunrennslið enn hægt í gegnum hraunpollinn sunnan Sýlingarfells, og nokkuð stöðugt. Engar breytingar er að sjá á skjálftavirkni.

Við erum ekkert að búast við miklu áhlaupi strax?

„Nei. Ekkert frekar. En svo kannski líka. Það er náttúrulega erfitt að hemja þetta. Þetta fer bara sínar leiðir,“ svarar Böðvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert