Enn óljóst hvenær þingmenn komast í sumarfrí

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forseti Alþingis segir erfitt að segja til um það hvenær þingi ljúki og þingmenn geti farið í sumarfrí. Mörg mál eru á dagskrá og enn eru uppi álitamál.

„Þingflokksformenn eru í samskiptum út af afgreiðslu mála, því það er enn slatti mála inni í nefndum. Þar eru enn þá einhver álitamál uppi þannig að dagurinn í dag segir svolítið til um það hvernig því reiðir af,“ segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is.

Upphafleg starfsáætlun þingsins gerði ráð fyrir því að þingi myndi ljúka 14. júní.

„Það verður bara að koma í ljós“

Meðal þeirra mála sem eru á dagskrá þingsins eru mál eins og Mannréttindastofnun, sala á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka, breytingar á lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga, fjármálaáætlun 2025-2029 og listamannalaun.

Birgir treystir sér ekki til þess að segja hvort þingi ljúki í þessari viku.

„Þetta er mikið af málum en hins vegar eru mörg þeirra langt komin, þannig það á ekki að vera svo mikil vinna eftir í þeim þegar heildarmyndin liggur fyrir,“ segir Birgir.

„En ég treysti mér ekki til að segja hvort að við klárum á laugardag eða hvernig það verður. Það verður bara að koma í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert