Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hefur sent fyrirspurn á Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra um svindl manna á ökuprófi.
Eins og mbl.is hefur fjallað um áður þá hafa komið fram ásakanir um að próftakar í svokölluðum „harkaraprófum“ sem gefa réttindi til leigubílaaksturs hafi svindlað á prófum og þar með aflað sér réttinda með röngu.
Próf Ökuskólans í Mjódd hafa verið nefnd í því sambandi.
Í fyrirspurn Bergþórs spyr hann hvort gripið hafi verið til aðgerða vegna frétta af svindli manna á ökuprófi með notkun hjálpartækja, svo sem farsíma, og/eða með hjálp aðstoðarmanns.
Þá spyr hann innviðaráðherra einnig hvort til greina komi að ógilda réttindi, þar sem próftaki svindlaði, og láta viðkomandi endurtaka prófið.
Í mars greindi Samgöngustofa frá því í svari til Morgunblaðsins að stofnunin hefði beint þeim fyrirmælum til skólans að símar yrðu að vera bannaðir á meðan próftaka stæði yfir og að eftirlit þyrfti að vera aukið.