Elínborg Una Einarsdóttir
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kveðst bjartsýnni en hún hefur verið á niðurstaða náist í kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar. Ef viðræðurnar gangi vel áfram geti farið að draga til tíðinda.
Fundur stendur yfir milli samninganefnda Eflingar og Reykjavíkuborgar og munu þær koma aftur saman á morgun.
„Þetta er svona að mjakast,“ segir Sólveig Anna um stöðu mála en deilunni var í síðustu viku vísað til ríkissáttasemjara.
Eins og mbl.is greindi frá er eitt helsta baráttumál Eflingar að deildarstjórar á leikskólum í félaginu fái jafn mikinn undirbúningstíma og deildarstjórar í Félagi leikskólakennara.
Sólveig segir að ekki sé enn búið að ganga frá því máli en að samtal sé í gangi.
Spurð hvort hún sé bjartsýn á að samningar náist fljótlega segir hún:
„Ég er bjartsýnni en ég var í síðustu viku og ef það heldur áfram að ganga vel eins og hefur gert núna í morgun þá mögulega gæti farið að draga til tíðinda fljótlega.“