Hafnarsvæði lokað vegna ammoníaksleka

Slökkviliðsmenn að störfum í húsinu.
Slökkviliðsmenn að störfum í húsinu. Ljósmynd/Slökkvilðið í Vesturbyggð

Slökkviliðinu í Vesturbyggð barst útkall um þrjúleytið í nótt frá vegfarendum vegna ammoníaksleka frá gömlu frystihúsi við höfnina í Tálknafirði.

Að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar slökkviliðsstjóra er ekki búið að staðsetja lekann.

Nokkuð stóru svæði var lokað en það hefur nú verið minnkað vegna betri loftgæða.

„Við erum að einbeita okkur að því að loka forðabúrunum fyrir ammoníakið og erum búin að afmarka kerfin niður í einn þriðja af því sem það er,” segir hann.

Ljósmynd/Slökkviliðið í Vesturbyggð

Ammoníaks- og kælikerfi eru í þessu húsi, sem er ekki lengur notað sem frystihús, auk þess sem kælar og frystar eru í húsinu við hliðina.

„Í nótt þá var megn stækja og það tók á móti okkur hvítur reykur frá ammoníaki. Sem betur fer fór það beint út á sjó,” segir Davíð Rúnar og bætir við að enn sé heilmikil lykt inni í húsinu og þar fyrir utan.

„Núna erum við annars vegar að leita að lekanum og hins vegar að reykræsta.”

„Mjög hættulegt efni“

Spurður út í hættuna segir hann lekann vera í vökvaformi. Lítið magn af efninu veldur sviða í augum og lungum. Þegar það verður meira líður yfir fólk af súrefnisskorti. „Þetta er mjög hættulegt efni."

Þess vegna segir hann alla á svæðinu vera klæddir eiturefnagöllum og með reykköfunartæki. Um fimmtán manns eru að störfum frá slökkviliðinu á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði.

„Við erum að vonast til að við séum komnir fyrir upptökin, að það sé í raun og veru hætt að leka en það er mikið á gólfunum sem við eigum eftir að þurrka upp og smúla út,” segir hann.

Spurður segist Davíð Rúnar ekki vita hvers vegna lekinn varð. „Þetta er gamalt kerfi sem hefur verið í notkun í nokkuð mörg ár,” segir hann og bætir við að kælimiðillinn sé sá sami og hafi verið notaður í ísskápum og frystum hér áður fyrr. Hann sé enn notaður í öllum frystihúsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert