Veðurstofan telur ekkert benda til þess að hlaup sé yfirvofandi í ánni Múlakvísl á Suðurlandi.
Áin á upptök sín í Mýrdalsjökli, en hlaup í henni er talið gefa góða vísbendingu um það hvort eldgos muni hefjast í Kötlu. Skjálfti að stærð 3,3 mældist þar fyrr í kvöld.
Jónas Erlendsson, bóndi á bænum Fagradal í Mýrdal og fréttaritari mbl.is, segist sjá skýr merki um aukið vatnsflæði í ánni sem þó megi hugsanlega rekja til árstímabundinna breytinga. Hann segist þó ekki hafa orðið var við skjálftavirknina nú á svæðinu.
„Þetta er sá árstími sem hlaupvatn berst í ána. Skjálftarnir eru gjarnan þar sem áin kemur út úr öskjunni en af minni reynslu, sýnist mér sem jarðhitakatlarnir undir öskjunni séu nú farnir að skila vatni fram.“
„Áin virkar skítug að sjá og er búin að vera það undanfarna daga, en það er ekki að finna sterka brennisteinslykt af henni,“ bætir Jónas við.