„Góðu fréttirnar eru þær að við erum með þetta nám sem verið er að kalla eftir,“ segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, prófessor og deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, í samtali við mbl.is um nám í hamfarafræðum sem þeir Þorvaldur Þórðarson prófessor og Ásmundur Friðriksson alþingismaður hafa talað fyrir að komið verði á fót við Háskóla Íslands.
„Við erum með meistaranám í áfallastjórnun og erum að fara af stað núna í haust með BA-nám í öryggisfræðum og almannavörnum,“ heldur Ólína áfram og skýrir frá því að í nýja BA-náminu standi til að fjalla um öryggishugtakið og öryggisvá, viðbrögð og varnir, á breiðum grunni en ekki aðeins í tengslum við náttúruhamfarir. Þegar komi að meistaranáminu í áfallastjórnun beinist athyglin að viðbrögðum við áföllum, samskipastjórnun, skipulagi og endurreisn.
Bendir Ólína á að síðustu ár hafi Íslendingar verið minntir á að forvarnir gegn öryggisógnum, sem og þjálfun og menntun í viðbrögðum við þeim, sé nokkuð sem þjóðin þurfi á að halda.
„Það krefst menntunar og þjálfunar að geta brugðist við öryggisógnum sem geta auðvitað verið af ýmsu tagi. Við höfum upplifað covid-heimsfaraldur, eldgos og náttúruhamfarir, og erum reglulega minnt á að náttúran er ekkert lamb að leika sér við. Efnahagshrunið kom verulega við kaunin á landsmönnum og rauf traust í samfélaginu. Það krefst menntunar að geta brugðist við svona áföllum og stemmt stigu við þeim,“ heldur Ólína áfram.
Öryggisfræði og almannavarnir segir hún að sé fyrsta námið á háskólastigi á Íslandi sem tileinkað sé þessum þáttum, nám sem teygi sig yfir nokkur fræðasvið, meðal annars áfallastjórnun, opinbera stjórnsýslu, lögfræði, stjórnunarfræði og miðlun og almannatengsl.
„Þarna er fræðilegur bakgrunnur öryggishugtaksins kynntur og settur í samhengi við sögu og samfélag. Þessu er svo fylgt eftir með því að kynna og greina varnir sem alþjóðasamfélagið og Ísland hafa yfir að ráða. Þetta er nám sem er til þess fallið að auka almenna vitund og þekkingu á ógnum og öryggi í nútímasamfélaginu og getur því nýst á hvaða sviði sem er – ekki síst þeim sem hafa áhuga á stjórnunarstörfum og alþjóðasamskiptum á sviði öryggismála og almannavarna,“ útskýrir Ólína.
Hún segir skipulagsheildir samtímans – hvort sem þar fari stofnanir eða heilu samfélögin – hafa verið að glíma við flóknar ógnir sem kalli á að stjórnendur veiti örugga forystu þegar verið sé að spá fyrir um hugsanleg áföll og bregðast við þeim. Reynslan sýni að slíkir aðilar þurfi að vera vel búnir undir að takast á við ógnir og áföll.
Ólína kveður báðar námslínurnar, grunnnámið sem meistaranámið, ríma vel við hvers kyns stjórnunarfræði og samskipti. „Þó að þetta hljómi svolítið eins og löggan og slökkviliðið þá er markhópurinn mun stærri, því námið hentar eiginlega öllum sem fást við stjórnun af einhverju tagi. Kennari í grunnskóla, sem ber ábyrgð á velferð nemenda, getur haft alveg jafn mikið gagn af því að kunna öryggisfræði og almannavarnir og hver annar,“ segir hún.
Enn fremur getur deildarforsetinn þess að nýja námslínan sé hugsuð með það fyrir augum að höfða til karlmanna. „Við verðum að játa að karlmenn hafa átt undir högg að sækja í skólakerfinu og eru aðeins um þriðjungur námsmanna í háskólum landsins, staðan er orðin þannig,“ segir Ólína af markhópnum.
Vitað sé til þess að fjöldi karlmanna í stjórnunarstöðum á þeim vettvangi sem námið beinist að búi ekki yfir menntun á þessu sviði og nefnir Ólína þar til dæmis slökkviliðsstjóra, sveitarstjóra, löggæslumenn og starfsmenn almannavarnakerfisins auk björgunarsveitarmanna.
„Þetta eru oft menn með margvíslega menntun og reynslu af ýmsum stigum samfélagsins, en myndu þó hafa gagn af að bæta við og fylla upp í þekkingu sína með þessu námi.“
Það hafi enda sýnt sig að karlmenn séu drjúgur hluti þeirra sem sæki um þetta nýja nám „og við erum þess fullviss að það er samfélagsleg þörf fyrir það. Þess vegna fagna ég því nú að þeir Þorvaldur og Ásmundur hafi vakið máls á þessu en ég vek athygli þeirra og annarra, sem eru að hugsa um þessi mál, að þetta námsframboð er til staðar við Háskólann á Bifröst,“ segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir deildarforseti að lokum.