„Nemum ekki merki um neinn gosóróa“

Stærsti skjálftinn var 3,3 að stærð.
Stærsti skjálftinn var 3,3 að stærð. mbl.is/Sigurður Bogi

Þrír skjálftar mældust við Kötlu og Mýrdalsjökul klukkan 21:26, en sá stærsti var 3,3 að stærð, en hinir tveir 2,8. Engin merki eru um eftirskjálftavirkni og engin tilkynning hefur borist um að skjálftarnir hafi fundist í byggð.

Samkvæmt Veðurstofunni er ekki um óróa að ræða, heldur staka árstímabundna skjálfta. Síðast mældist skjálfti af stærð 3,4 í Mýrdalsjökli þann 2. júní á þessi ári.

„Við búumst ekki við eldgosi í augnablikinu og teljum frekar að um staka skjálfta sé að ræða. Okkur sýnist allt vera nokkuð rólegt eins og er, en nemum ekki merki um neinn gosóróa.“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Elísabet segir skjálfta af þessari tegund viðbúna á vorinn, þegar ís léttir á jöklinum og þrýstingurinn í honum breytist.  

Telja hlaup ekki vera að hefjast

„Það er heldur ekkert sem bendir til þess að hlaup sé yfirvofandi við Múlakvísl, en við myndum mæla tölvuert meiri óróa ef það væri að um það bil að hefjast.“ segir Elísabet.  

„Þó er einnig hugsanlegt að sjálftinn eigi upptök sín í jarðhitakerfinu undir jöklinum, en þar eru katlar, þar sem jarðhitavatn safnast fyrir. Ef breytingar verða í jarðhitakerfinu getur það orsakað jarðskálfta.“

„Við vitum ekki nákvæmlega hver orsök skjálftana eru, en ég er nokkuð viss um að við myndum fá töluvert kröftugari skjálfta og skjálfta hrinur ef þetta væri undanfari goss.“

„Þetta eru ekki stórir skjálftar á þeim mælikvarða og við sjáum engin merki um yfirvofandi gos, eða frekari skjálftahrinur.“ segir Elísabet að lokum.

Fréttin var uppfærð klukkan 22:48.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka