Laun æðstu embættismanna hækki um 66 þúsund

Málið verður rætt á Alþingi í dag.
Málið verður rætt á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsta umræða er fyrirhuguð á Alþingi í dag um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar launa æðstu embættismanna þjóðarinnar.

Samkvæmt frumvarpinu eiga laun forseta, forsætisráðherra og annarra ráðherra og þingmanna að hækka um 66 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. júlí næstkomandi.

Það sama gildir meðal annars um laun seðlabankastjóra, forseta Hæstaréttar, forseta Landsréttar, ríkissaksóknara, vararíkissaksóknara og héraðssaksóknara.

„Hinn 1. júlí ár hvert skulu laun tiltekinna starfa samkvæmt sérákvæðum í lögum taka breytingum sem nemur meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár sem reiknað er af Hagstofu Íslands. Í þessum hópi eru þjóðkjörnir fulltrúar (forseti Íslands og alþingismenn), ráðherrar, dómarar, saksóknarar, lögreglustjórar, ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri, varaseðlabankastjórar og ríkissáttasemjari,” segir í greinargerð frumvarpsins.

Í frumvarpinu er lagt til að laun þeirra sem taka laun samkvæmt lagaákvæðum hækki um 66 þúsund á mánuði í stað 8% en launavísitala ríkisstarfsmanna viðmiðunarárið 2023 er 8,0% samkvæmt Hagstofu Íslands.

„Kostnaður ríkissjóðs af 8% hækkun launa þess hóps sem frumvarpið nær til hefði orðið um 424 millj. kr. á ári en kostnaður af 66.000 kr. hækkun á mánuði er áætlaður 186 millj. kr. á ári. Útgjöld ríkissjóðs verða því um 238 millj. kr. lægri á ársgrundvelli en ella hefði verið, verði frumvarpið óbreytt að lögum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert