Hugsanlegt bann við nýskráningu bensín- og dísilbifreiða árið 2028 í uppfærðri aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum er útópískt og aðför að efnahag fjölskyldna í landinu.
Um er að ræða „kattasmölun“ á þingmönnum Vinstri grænna (VG) til að halda flokknum áfram í ríkisstjórn.
Þetta sagði Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi fyrr í dag.
„Ekki er aðeins verulegur kurr í landsbyggðarfólki vegna þessara frétta, sem von er, heldur má fullyrða að hér er enn eitt umbúðamálið frá þessari mjög svo ósamstiga ríkisstjórn,“ sagði Þorgrímur.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sagði í gær ákveðins misskilnings gæta um að nýskráning bensín- og dísilbifreiða yrði óheimil árið 2028.
Til útskýringar sagði hann tillöguna ganga út á það að skoða hvaða afleiðingar það hefði að flýta banninu frá árinu 2030 til ársins 2028.
Þorgrímur sagði þetta aðeins snúast um umbúðirnar en ekki innihaldið. Hann sagði að mögulegt bann við bensín- og dísilbifreiðum árið 2028 væri útópískt, en hefði svo sem ekki komið á óvart kæmi þetta frá VG.
„En ætla Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn að láta draga sig í slíka vegferð og aðför að efnahag fjölskyldna í landinu og öryggi landsbyggðarinnar? Mér er spurn, herra forseti: Hversu nærri heimilum og atvinnulífinu eru framsóknar og Sjálfstæðismenn tilbúnir að ganga til þess eins að halda villiköttum VG innanhúss,“ sagði Þorgrímur og bætti við:
„Ég sé ekki annað í málinu en að það sé það sem verið er að gera. Þetta er svokölluð kattasmölun og hefur verið notuð áður í þessum þingsal.“