Líkti þingmönnum VG við villiketti

Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins, tók til máls í umræðum um …
Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins, tók til máls í umræðum um störf þingsins. Skjáskot/Vefur Alþingis

Hugsanlegt bann við nýskráningu bensín- og dísilbifreiða árið 2028 í uppfærðri aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum er útópískt og aðför að efnahag fjölskyldna í landinu.

Um er að ræða „kattasmölun“ á þingmönnum Vinstri grænna (VG) til að halda flokknum áfram í ríkisstjórn.

Þetta sagði Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi fyrr í dag.

Kurr í landsbyggðarfólki

„Ekki er aðeins verulegur kurr í landsbyggðarfólki vegna þessara frétta, sem von er, heldur má fullyrða að hér er enn eitt umbúðamálið frá þessari mjög svo ósamstiga ríkisstjórn,“ sagði Þorgrímur.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, sagði í gær ákveðins mis­skiln­ings gæta um að ný­skrán­ing bens­ín- og dísil­bif­reiða yrði óheim­il árið 2028.

Til út­skýr­ing­ar sagði hann til­lög­una ganga út á það að skoða hvaða af­leiðing­ar það hefði að flýta bann­inu frá ár­inu 2030 til árs­ins 2028.

„Þetta er svokölluð kattasmölun“

Þorgrímur sagði þetta aðeins snúast um umbúðirnar en ekki innihaldið. Hann sagði að mögulegt bann við bensín- og dísilbifreiðum árið 2028 væri útópískt, en hefði svo sem ekki komið á óvart kæmi þetta frá VG.

„En ætla Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn að láta draga sig í slíka vegferð og aðför að efnahag fjölskyldna í landinu og öryggi landsbyggðarinnar? Mér er spurn, herra forseti: Hversu nærri heimilum og atvinnulífinu eru framsóknar og Sjálfstæðismenn tilbúnir að ganga til þess eins að halda villiköttum VG innanhúss,“ sagði Þorgrímur og bætti við:

„Ég sé ekki annað í málinu en að það sé það sem verið er að gera. Þetta er svokölluð kattasmölun og hefur verið notuð áður í þessum þingsal.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert