Nákvæm staðsetning lekans óljós

Um 15 manns voru sendir á staðinn. Mikill viðbúnaður var …
Um 15 manns voru sendir á staðinn. Mikill viðbúnaður var á svæðinu. mbl.is/Guðlaugur Albertsson

Störfum á vettvangi vegna ammoníaksleka við vélasal gamla frystihússins á Tálknafirði er lokið í bili. Ekki náðist að finna nákvæma staðsetningu lekans en svæðið verður vaktað næstu tvo daga. Dýralífi á svæðinu stafar ekki hætta af lekanum.

Þetta staðfestir Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Vesturbyggð í samtali við mbl.is.

Útkall barst til slökkviliðsins um klukkan þrjú í nótt vegna lekans. Stóru svæði var lokað en vindátt var hagstæð svo ekki myndaðist hætta í byggð. Um 15 manns voru sendir á vettvang í dag.

Slys sem þessi orðin sjaldgæf 

„Við erum sum sé í þessum töluðu orðum að keyra af staðnum, vorum búnir að einangra lekann niður við eina vél og náðum að loka sitthvoru megin, tappa þrýstingnum af og málið dautt. En það tekur náttúrulega þó nokkurn tíma fyrir ammóníakið að leysast alveg upp, eða lyktina en svæðið í kring er orðið hættulaust,“ segir Davíð.

Spurður hver staðan á kerfinu sé segir Davíð kælikerfið sem um ræðir orðið frekar gamalt og að komið sé að viðhaldi. Hann nefnir þó að lekar sem þessir séu sjaldgæfir sökum þess að á síðustu 20 til 30 árum hafi viðhald og eftirlit skánað til muna.

Ljósmynd/Guðlaugur Albertsson

Þá segir hann slökkviliðið ekki hafa getað komist að því hvað nákvæmlega hafi gerst.

„Við vitum í raun og veru ekki hvað gerist, við náðum ekki að sjá nákvæmlega hvar lekinn var heldur bara á hvaða svæði,“ segir Davíð.

Hafa ekki áhyggjur af náttúru á svæðinu

Er ykkar verki á svæðinu þá alveg lokið?

„Svæðið verður vaktað núna í dag og á morgun og þá er metið á morgun hvort öll lyktin sé ekki í raun farin,“ segir Davíð.

„Vöktunin felst aðallega í því hvort að ammoníakslyktin haldist ekki óbreytt eða minnki miðað við það sem hún er í dag, þannig að það sé í raun og veru ekki meiri leki heldur að lekinn sé búinn. En það tekur alveg nokkra tíma fyrir lyktina að eyðast upp í andrúmsloftinu.“

Spurður hvort að lekinn hafi áhrif á dýralíf segir hann svo ekki vera.

„Við erum í sambandi við heilbrigðiseftirlitið og vinnueftirlitið og við höfum ekki áhyggjur af umhverfinu. Ammoníak hvarfast mjög vel við vatn og hlutleysist á mjög einfaldan hátt þannig að náttúru- og dýralífi stafar ekki hætta af þessu,“ segir Davíð að lokum.

Slökkviliðsmenn að störfum.
Slökkviliðsmenn að störfum. mbl.is/Guðlaugur Albertsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert