Reynslumiklir leigubílstjórar einnig kærðir

Lögregla kærði og sektaði 48 leigubílstjóra um liðna helgi.
Lögregla kærði og sektaði 48 leigubílstjóra um liðna helgi. mbl.is/​Hari

Fjörutíu og átta leigubílstjórar voru kærðir og mega eiga von á sektum eftir eftirlitsferð lögreglu, skattayfirvalda og Samgöngustofu um liðna helgi. Snúa brotin að ýmsum annmörkum í búnaði leigubílstjóra. Þá voru fjórir sem óku farþegum án þess að hafa leyfi til aksturs í atvinnuskyni. 

Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri í almennri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að það sem hafi ekki síst komið á óvart hafi verið það að reynslumiklir leigubílstjórar til jafns við þá sem eru reynsluminni hafi verið kærðir. 

Búnir að keyra í mörg ár 

„Hluti þessara manna sem voru leyfislausir voru reynslumiklir leigubílstjórar sem eru búnir að keyra í mörg ár,“ segir Unnar. 

Hann segir að ekki hafi verið marktækur munur á athugasemdum eftir fyrirtækjum hvort sem það hafi verið Hreyfill, BSR eða City Taxi. 

„Það eru félög sem hafa verið að verjast breytingu á lögum um frekari leyfisveitingar og þess vegna kom þetta svolítið á óvart,“ segir Unnar.  

Þá vekur jafnframt athygli að sögn Unnars, að gera hafi þurft athugasemdir við svo hátt hlutfall leigubíla en í heild voru 105 bílar stöðvaðir og teknir í athugun. Fer því nærri að helmingur þeirra sem stöðvaðir voru hafi verið kærðir. 

Hitt og þetta sem vantaði 

„Þetta var svona hitt og þetta sem vantaði í bílana. Merkingar vantaði, sjúkrakassa vantaði, slökkvitæki vantaði, verðmerkingar vantaði og fleira til,“ segir Unnar Már. 

Hann segir sektir misháar. Ítrekuð brot og akstur án leyfis bera með sér hæstu sektirnar. 

Af þeim fjórum sem voru leyfislausir var einn sem ekki var með ökutækið skráð sem leigubíl en þrír voru ekki með leyfi til aksturs farþega í atvinnuskyni. 

Skatturinn á vettvangi 

Verkefnið er samstarfsverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Suðurlandi, lögreglunnar á Vesturlandi, Samgöngustofu og Skattsins. 

Voru því fulltrúar frá öllum þessum stofnunum á vettvangi.  

„Skatturinn er að skoða staðgreiðsluna hjá þeim sem er að aka, hvort hann sé launþegi eða verktaki og hvort hann standi skil á sköttum. Samgöngustofa er hins vegar eftirlitsskyld samkvæmt lögunum,“ segir Unnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert